Lífið

Skiptir út kommentakerfinu fyrir ljóð

Baldvin Þormóðsson skrifar
Birkir Blær Ingólfsson gefur út sína fyrstu ljóðabók í dag á fréttavef Vísis.
Birkir Blær Ingólfsson gefur út sína fyrstu ljóðabók í dag á fréttavef Vísis. Vísir/Andri Marinó
„Þetta er tilraun til að koma ljóðum í þessa „one click away“-menningu sem er ráðandi í dag,“ segir ljóðskáldið Birkir Blær Ingólfsson en hans fyrsta ljóðabók, Vísur, kemur út í dag á fréttavef Vísis í samstarfi við forlagið Meðgönguljóð.

„Þetta virkar þannig að fólk getur sótt forrit sem skiptir út athugasemdakerfinu á Vísi fyrir ljóð úr bókinni,“ segir Birkir.

„Ljóðin birtast koll af kolli undir fréttum þar til bókin klárast og þá eyðir forritið sér sjálft og kommentakerfið snýr aftur.“

Forsíða ljóðabókarinnar.
Ljóðabók af þessu tagi er líklega hin fyrsta sinnar tegundar í heiminum en Birkir er búinn að ganga með þessa hugmynd í kollinum í einhvern tíma.

„Á Íslandi koma út fjölmargar ljóðabækur á hverju ári, en ég er ekki viss um að margir gefi sér tíma til að lesa þau,“ segir Birkir. 

„Kannski er það vegna þess að enginn hefur áhuga á ljóðum lengur. En kannski er það vegna þess að enginn nennir að gera sér ferð út í bókabúð. Fólk lifir og hrærist inni á internetinu og þetta er tilraun til að sjanghæja ljóðum inn í þann veruleika.“ 

Áhugasamir geta sótt ljóðaforritið á fréttavef Vísis og lesið ljóðin undir menningar- og dægurmálatengdum fréttum. Auk þess verður haldið útgáfuhóf á skemmtistaðnum Húrra klukkan átta í kvöld og allir eru hjartanlega velkomnir.

Ljóðabókina er hægt að skoða í Google Chrome-vafra með því að sækja vafraviðbót í Chrome Web Store. Hún birtist síðan fyrir neðan fréttir í Lífinu á Vísi, ljóð fyrir ljóð. Þegar lesandi er kominn út að enda bókarinnar hverfur hún úr vafranum og hefðbundið kommentakerfi birtist aftur.

Við hvetjum fólk til að ná í þessa skemmtilegu ljóðabók en hægt er að nálgast hana hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×