Innlent

Skiptar skoðanir íbúa um endurhönnun Hofsvallagötu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Íbúar voru margir hevrjir ekki ánægðir með litagleðina eftir framkvæmdir við götuna síðasta sumar. Á myndinni má sjá gróðurkassana sem voru einnig umdeildir.
Íbúar voru margir hevrjir ekki ánægðir með litagleðina eftir framkvæmdir við götuna síðasta sumar. Á myndinni má sjá gróðurkassana sem voru einnig umdeildir. VÍSIR/VILHELM
Nægur gróður er í Vesturbæ Reykjavíkur og í borginni að mati margra íbúa við Hofsvallagötu og því telja þeir að ekki sé þörf á að gróðursetja tré við götuna. Einhverjir voru þó á því að setja mætti blómakörfur á ljósastaura við götuna.

Hofsvallagata þykir einstök borgargata en frá efsta punkti hennar er bein sjónlína niður að sjó. Slíkt er einstakt fyrir breiðgötu í Reykjavík. Íbúar töldu því mikilvægt að gróður sem notaður yrði myndi ekki skyggja á þessa sjónlínu. 

Þessar hugmyndir er meðal fjölmargra sem komu frá íbúum vegna endurhönnunar Hofsvallagötu í Reykjavík á vinnufundi sem haldinn var á Hótel Sögu í mars. Ráðgjafasvið KPMG hefur skilað skýrslu um fundinn og og þar eru allar hugmyndir fundargesta skráðar.

Margir hafa áhyggjur af öryggismálum

Í júlí á síðasta ári varð nokkur styr um framkvæmdir við götuna. Hún var þrengd að hluta og við hana voru lagðir hjólastígar. Þá var komið upp fuglahúsum, flöggum og gróðurkössum við hana. Framkvæmdirnar kostuðu tæpar 20 milljónir króna. Íbúar í Vesturbænum voru ekki allir á eitt sáttir við þessa breytingar. Fór svo að lokum að þær voru teknar til baka að mestu leyti í nóvember.



Þá var ákveðið að endurhönnun götunnar yrði gerð í samráði við íbúa við götuna og þar í kring. Skoðanir varðandi endurhönnun götunnar eru greinilegar skiptar en þó má greina samhljóm. Þetta kemur fram á vefsíðu Reykjavíkur.

Margir höfðu áhyggjur af öryggismálum við götuna og sögðu hraðaakstur vera á neðsta kafla hennar. Hvatt var til þess að umferðarhraði yrði lækkaður.

Varast ber of mikla litagleði

Á fundinum heyrðust einnig þau sjónarmið að endurgerð götunnar eigi að vera í stíl við hverfið og varast beri of mikla litagleði við endurhönnun hennar.

Afstaða til hjólastíga var misjöfn. Ýmist var lagt til þess að þeir yrðu fjarlægðir eða færðir í aðrar götur. Mjókka ætti þá eða breikka. Bent var á kosti þess að opna botnlangagötur að Hofsvalalgötu þar sem það gæti dreift umferðarálagi um hverfið.

150 milljónir eiga að fara í endurgerð götunnar

Niðurstöðurnar verða hafðar til hliðsjónar við endurhönnun götunnar en Hofsvallagatan er svokölluð borgargata samkvæmt nýju aðalskipulagi og stendur til að endurhanna hana frá Hringbraut og að Ægisíðu. Í slíkum götum er áhersla lögð á jafnt aðgengi fyrir alla, gangandi, hjólandi og akandi, ásamt því að hugað er að umferðaröryggismálum og hægt á umferð.

Endanleg hönnun verður kynnt fyrir íbúum í hverfinu þegar hún liggur fyrir en samkvæmt framkvæmdaáætlun borgarinnar eiga 150 milljónir króna að fara í gagngera endurgerð götunnar.


Tengdar fréttir

Umferðarmerkingar gætu skapað vegfarendum hættu

Ekkert samráð var haft við Strætó bs. áður en þrenging Hofsvallagötu hófst í sumar. Þetta segir sviðsstjóri Skipulags- og þróunarsviðs hjá Strætó og bendir á að umferðarteppur myndist á götunni.

Flögg og eyjur hverfa af Hofsvallagötu

Samþykkt var í umhverfis- og skipulagsráði að fjarlægja flögg og eyjur sem eru á Hofsvallagötu. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir að viðurkenna hefði átt mistök. Ósáttur íbúi segir að ganga hefði átt lengra og tvöfalda akreinar nærri ljósum.

Vinnufundur íbúa um endurhönnun Hofsvallagötu í dag

Sérfræðingur hjá KPMG stýrir vinnufundi með íbúum um endurhönnun Hofsvallagötu í dag en áður mun fagfólk hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar kynna forsendur verkefnisins.

Fundað vegna Hofsvallagötu

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu minnihlutans í borgarstjórn í gær um að boðað yrði til almenns íbúafundar strax á næstu dögum um breytingar á skipulagi Hofsvallagötu og framkvæmdir á götunni.

Ber enn merki misskilnings

Hin skrautlega Hofsvallagata ber enn þess merki þegar starfsmenn Reykjavíkurborgar spúluðu málningu af götunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×