Innlent

Sjötíu metra háir gosstrókar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gosstrókar fóru upp í sjötíu metra hæð í dag en hafa frá því að gos hófst verið um tuttugu til sextíu metra háir. Kraftur gossins er með svipuðu móti og verið hefur en örlítið dregið úr skjálftavirkni. Gosið er stöðugt og lítill sem enginn gosórói hefur mælst. Vísindamenn segja gosið samfellt og frekar hljóðlátt. Ekki eru líkur á flóði en hættustig er þó í gildi.

„Það sem við erum hræddir við er að gosið opnist annars staðar og það byrji að gjósa undir jöklinum. Þá er flóðahætta. En á meðan við getum ekki útilokað það þá er það hluti af okkar áhættumati að það sé flóðahætta,“ segir Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Hann segir þó einhverjar líkur á að gos opnist annars staðar. „Það er hætta meðan það er enn mikill gangur í þessu í bergganginum og framgangi þar. Þá er alltaf möguleiki á því að það gjósi annars staðar. En það kemur ekki í ljós fyrr en á morgun þegar mælingum dagsins og næturinnar verður lokið hvort það séu einhverjar breytingar,“ segir Víðir. 

Eldgosið hófst í Holuhrauni um klukkan fimm í morgun og er staðsett á sömu sprungu og eldgosið sem hófst á föstudag. Það er þó margfalt stærra.

Myndband af gosstrókunum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Gos hafið að nýju

Af vefmyndavél Mílu má glögglega sjá að gos er hafið að nýju í Holuhrauni norðan Dyngjujökuls, á sama stað og gos hófst aðfaranótt föstudags.

Stærra gos en síðast

"Þetta er hraungos og það er aðeins meira en síðast. Meira hraun sem er ósköp eðlilegt og eins og við var búist,“ segir eldfjallafræðingurinn Ármann Höskuldsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×