Innlent

Sjö prósent þátttaka í íbúakosningum: Þarf að fara í mjög alvarlega endurskoðun

Bjarki Ármannsson skrifar
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn vilja endurskoða fyrirkomulag netkosningarinnar Betri hverfi í ljósi lítillar þátttöku.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn vilja endurskoða fyrirkomulag netkosningarinnar Betri hverfi í ljósi lítillar þátttöku. Vísir/Vilhelm
Hildur Sverrisdóttir og Áslaug María Friðriksdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar, lögðu til á fundi ráðsins í dag að endurskoða fyrirkomulag netkosningarinnar Betri hverfi í ljósi lítillar þátttöku. Niðurstöður kosningarinnar voru kynntar borgarfulltrúum í dag.

„Ég held að það sé tilefni til að hrósa fyrir þau vinnubrögð, að þetta liggi fyrir svona fljótt,“ segir Hildur. „En það breytir því ekki að þessar niðurstöður hljóta að valda vonbrigðum.“

Rafræn kosning um tillögur að framkvæmdum í hverfum borgarinnar stóð yfir í febrúarmánuði. Alls auðkenndu sig 7.103 manns til þátttöku í kosningunum sem gerir 7,3 prósent borgarbúa.

Sjá einnig: Upplýsingastjórinn tók eigin hugmynd sem dæmi í kynningu íbúakosningar

Hildur segir að verkefnið hafi verið í gangi það lengi og verið það vel kynnt að lítil þátttaka sé tilefni til að spyrja hvort stjórnmálamenn séu spenntari fyrir verkefninu en hinn almenni borgari. Ekki síst vegna þess að niðurstöðurnar úr verkefninu, sem snýst um framkvæmdir fyrir um 300 milljónir króna, eru bindandi.

„Því verður að skoða hvort það sé réttlætanlegt að aðeins sirka sjö prósent í hverju hverfi séu að stýra með bindandi hætti þeim ákvörðunum sem eru teknar í hverju hverfi,“ segir Hildur. „Sérstaklega þegar verkefni eru viðkvæm, með kosti og galla, og engin ber á þeim pólitíska ábyrgð. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu lögðum til í dag að í ljósi þessara upplýsinga þyrfti að fara í mjög alvarlega endurskoðun á þessu. Þeirri tillögu var frestað, þannig ég bíð bara eftir viðbrögðum meirihlutans í því.“


Tengdar fréttir

Reykvíkingar kjósa í febrúar

Rafræna íbúakosningin Betri hverfi 2015 fer fram í Reykjavík dagana 17. til 24. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×