Viðskipti innlent

Sir Richard keypti íslenska hesta fyrir um 100 milljónir

Hér má sjá nokkra af þeim hestum sem Sir Richard keypti í vetur.
Hér má sjá nokkra af þeim hestum sem Sir Richard keypti í vetur.
Breski auðmaðurinn Sir Richard Georg hefur keypt íslenska hesta fyrir í kringum 100 milljónir kr. Þeir eru staðsettir á bænum Lækjarmóti II í Víðidal í Húnaþingi. Eins og kunnugt er af fréttum hefur Sir Richard ákveðið að leggja til um hálfan milljarð kr. í uppbygginu á hesthúsi og reiðhöll við bæinn. Sjá hér.

Á vefsíðu Lækjarmóts kemur fram að hestarnir, sem eru 11 að tölu, hafi verið keyptir í febrúar s.l. og sé þeim ætlað að efla hrossaræktina á bænum.

Hestarnir sem hér um ræðir eru sex 1.verðlauna hryssur, Þær Katla frá Blönduósi (aðaleinkunn 8,25), Eydís frá Hæli (a.e 8,24), Sýn frá Grafarkoti (a.e 8,13), Návist frá Lækjamóti (a.e 8,21), Dimma frá Hólum (a.e 8,06) og Viðreisn frá Búðardal (a.e 8,10).

Auk þess voru keppnishestarnir Vaðall frá Akranesi (a.e 8,42), Sólbjartur frá Flekkudal (a.e 8,29), Gandálfur frá Selfossi (a.e 8,46), Korði frá Kanastöðum og  Flosi frá Búlandi. Ábúendurnir áttu fyrir áttu þau Freyði frá Leysingjastöðum (a.e 8,17).

Vísir hefur heimildir fyrir því að algengt verð á hestum af svipuðum gæðum og þeim sem hér eru taldir upp sé í kringum 10 milljónir króna hver, eða ekki langt frá þeirri upphæð.

Ísólfur Líndal Þórisson bóndi á Lækjarmóti vill ekki tjá sig um hve mikið fyrrgreindir hestar hafi kostað. Sir Richard hafi viljað hafa úrvalshesta til eigin nota á bænum en þeir verða að öðru leyti notaðir við framtíðarrekstur á þessu hrossabúi. Eins og fram hefur komið er m.a. ætlunin að reka þar reiðskóla fyrir erlenda ferðamenn.

Bjartsýnn á framtíðina

Ísólfur Líndal er mjög bjartsýnn á framtíðina á Lækjarmóti. Hann reiknar með að byggingar þær sem nú eru að rísa við bæinn verði tilbúnar í janúar á næsta ári.

“Við erum með ýmsar hugmyndir um hvernig við nýtum aðstöðuna þegar hún er að fullu komin í gagnið,” segir Ísólfur. “Ein er sú að stíla á auðugri ferðamenn þegar kemur að reiðkennslunni og hestamennskunni.”

Ísólfur segir að ekki verði gistiaðstaða fyrir ferðamenn á Lækjarmóti en hann bendir á að töluvert sé af frábæru gistirými í boði í sveitinni sem bær hans tilheyrir. Það verði því ekki vandamál að koma ferðamönnunum fyrir sem vilja nýta sér það sem verður í boði á Lækjarmóti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×