Viðskipti innlent

Breskur auðmaður að baki byggingu risahesthúss í Húnaþingi

Breski auðkýfingurinn sir Richard George lánar fjármagn til byggingar um 2.500 fermetra reiðhallar og hesthúss í landi Lækjamóts í Víðidal í Húnaþingi vestra.

Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptablaðsins en heimildir blaðsins herma að kostnaður við framkvæmdina nemi í kringum hálfan milljarð króna og verði hesthúsið með þeim flottari á landinu með stíum fyrir 31 hest.

Ísólfur Líndal, hestamaður og reiðkennari, og fjölskylda hans að Lækjamóti, stendur að framkvæmdunum. Stefnt er að því að erlendir ferðamenn komi á Lækjamót í reiðkennslu.

Áætlanir gera ráð fyrir því að hægt verði að hefja rekstur í því í janúar á næsta ári.

Auður Sir Richard George byggist á framleiðslu Weetabix, einu mest selda morgunkorni Breta. Afi hans hóf framleiðslu á því í Bretlandi árið 1932 og var sir George forstjóri Weetabix Limited þar til árið 2003 þegar hann seldi reksturinn til bandaríska sjóðsins Hicks Muse fyrir 642 milljónir punda, jafnvirði í kringum 77 milljarða íslenskra króna á meðalgengi þess tíma, að því er segir í Viðskiptablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×