Innlent

Sigrún verður nýr ráðherra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigrún Magnúsdóttir er elsti þingmaður landsins en hún fagnaði sjötugsafmæli sínu síðastliðið sumar.
Sigrún Magnúsdóttir er elsti þingmaður landsins en hún fagnaði sjötugsafmæli sínu síðastliðið sumar. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun samkvæmt heimildum Vísis leggja þá tillögu fyrir þingflokksfund Framsóknarflokksins síðdegis að Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður flokksins í Reykjavík og formaður þingflokksins, verði nýr ráðherra flokksins. Sigrún hefur verið orðuð við embætti nýs umhverfis- og auðlindaráðherra en ráðuneytið hefur heyrt undir Sigurð Inga Jóhannsson sem einnig gegnir stöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þingflokksfundur Framsóknar hefst klukkan 17. Samþykki þingflokkurinn tillögu Sigmundar Davíðs, sem reikna má með, mun Sigrún mæta á fund ríkistjórnar með forseta Íslands á Bessastöðum klukkan 10 í fyrramálið, á gamlársdag.

Frá ríkisráðsfundi á dögunum.Vísir/GVA
Kynjahlutfallið 6:4

Sjálfstæðisflokkurinn hefur til þessa haft fimm ráðherra í ríkisstjórninni en Framsókn fjóra. Í rúmt eitt og hálft ár hefur staðið til að skipa fimmta ráðherra Framsóknar og nú er loks komið að skipuninni.

Sigrún verður fjórði kvenráðherrann í ríkisstjórninni en af tíu ráðherrum verða nú sex karlar og fjórar konur. Auk Sigrúnar gegnir flokkssystir hennar, Eygló Harðardóttir, embætti félags- og húsnæðismálaráðherra og þá gegna Sjálfstæðiskonurnar Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ólöf Nordal embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar.

Páll Pétursson hætti á þingi árið 2003 en hann er í dag 77 ára gamall.
Gæti bætt met Gunnars

Sigrún, sem fagnaði sjötugsafmæli sínu á árinu og er elsti þingmaður landsins, verður elsti Íslendingurinn til að setjast í stól ráðherra. Hún gæti einnig orðið elsti ráðherra Íslandssögunnar sitji hún í embætti út kjörtímabil Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Þá verður hún á 74. aldursári en Gunnar Thoroddsen var 72 ára þegar hann lét af embætti forsætisráðherra í maí 1983. Gunnar var hins vegar 69 ára þegar hann tók við embættinu eða árinu yngri en Sigrún.

Eiginmaður Sigrúnar er Páll Pétursson sem gegndi embætti félagsmálaráðherra frá 1995 til 2003. Þau Sigrún munu vera fyrstu hjónin til að gegna bæði embætti ráðherra. Páll var sömuleiðis formaður þingflokks Framsóknarflokksins frá 1980 til 1994 en Sigrún hefur gegnt stöðunni frá 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×