Innlent

Sigmundur Davíð segir að fleiri en einn ráðherra hafi fengið tilboð frá starfsmönnum vogunarsjóða

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Vísir/Ernir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að hann hafi ekki verið eini ráðherrann í ríkisstjórn sinni sem fékk tilboð frá aðilum á vegum vogunarsjóða. Hann segir hlutina ekki vera klippta og skorna í þessum málum en að aðilar á vegum vogunarsjóðanna hafi meðal annars elt hann á ráðstefnu í London og honum verið boðið að funda í bjálkakofa í Norður-Dakóta. Rætt var við Sigmund Davíð í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni lýsti Sigmundur Davíð samskiptum sem hann hafði átt við starfsmenn vogunarsjóða sem áttu hagsmuna að gæta á Íslandi. Mátti skilja það sem svo, án þess að Sigmundur Davíð segði það berum orðum, að þeir hefðu á einhverjum tímapunkti reynt að múta forsætisráðherranum fyrrverandi, til þess að fá fram hagfellda niðurstöðu í viðræðum sínum við íslensk stjórnvöld.

Brynjar Níelsson, sem er formaður stjórskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, var spurður út í orð Sigmundar Davíðs í þættinum Í bítinu á Bylgjunni í morgun. Sagði hann að ljóst væri að ef Sigmundur Davíð væri að segja að honum hefði verið boðnar mútur væri það alvarlegt mál. Hann væri þó ekki viss um að slíkt hafi átt sér stað.

„Þetta er ekki alveg í fyrsta skiptið sem þetta kemur til umræðu, hefur meira að segja verið rætt í þinginu áður. Þannig að mér finnst nú að Brynjar Níelsson, sem ég hef nú yfirleitt mjög gaman af, mætti samt fylgjast betur með í tímum áður en hann fer að kenna námskeiðið sjálfur,“ segir Sigmundur aðspurður um ummæli Brynjars.

Hann segist furða sig á hvernig umræðan hafi verið og segir fólk hafa gefið í skyn að um hugaróra hans sé að ræða.

„Og mér hefur þótt menn, margir hverjir, vera býsna barnalegir í því hvernig þeir fjalla um þessi mál og aðkomu þessara aðila að íslensku efnahagslífi og íslenskum stjórnmálum. Þetta er náttúrulega eitthvað sem við höfum aldrei kynnst áður, að menn séu að takast á um svona gífurlega hagsmuni og að aðilar sem þessir séu mættir til Íslands. Þannig að það er kannski skiljanlegt að það taki einhvern tíma að átta sig á því. En mér þótti furðulegt hvað menn fóru í mikla afneitun um það þegar þetta mátti vera ljóst og svo í framhaldinu þegar byrjaðar voru að týnast inn sannanirnar á því hvað hafði gengið hér á.“

Sjá einnig:Brynjar segir að Sigmundur Davíð verði að segja hreint út hvort honum hafi verið boðnar mútur

„Að sjálfsögðu gengur þetta ekki þannig fyrir sig að George Soros sendi manni samning og bjóði manni að fallast á að gera einhverja tiltekna hluti og þá fái maður milljarð í tösku í hólfi á umferðarmiðstöðinni. Menn í fyrsta lagi, senda yfirleitt einhverja aðra, einhverja milliliði, og nálgast viðmælanda með því að segja hluti á borð við; „Er ekki best fyrir alla að við leysum þetta? Við teljum okkur geta fundið flöt á þessu sem er ásættanlegur fyrir Íslendinga og ásættanlegur fyrir okkur og ásættanlegur fyrir þig. Þannig að þú getir leyft þér að hætta að hugsa um þetta stjórnmálavesen og farið að njóta lífsins, það er miklu meira en nóg til skiptanna.““

Þú metur það sem svo að þarna sé verið að ræða um fjárhæðir eða peninga?

„Ég er að taka dæmi um hvernig menn geta orðað þetta. Ég hins vegar skrifaði oft niður samtöl við þessa aðila og mun einhvern tíman upplýsa um hvernig nákvæmlega þetta gekk allt saman fyrir sig. En það sem ég er að segja er að sjálfsögðu gera menn þetta ekki formlega og ekki skriflega heldur með þeim hætti að þeir geti síðan þóst ekkert kannast við málið. Ég skal taka tvö dæmi hins vegar um hvernig menn nálguðust mig. Í eitt skiptið var ég að tala á ráðstefnu í Bretlandi. Þá var ég eltur þangað á hótelið þar sem ráðstefnan fór fram og reynt að fá mig upp á hótelherbergi til að ganga frá málum með tilteknum hætti,“ segir Sigmundur og heldur áfram.

„Í öðru tilviki fór ég í heimsókn til Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku og meðal annars til Íslenidinga í Norður-Dakóta. Þá fékk ég meldingu um það að það væri til reiðu einhver bjálkakofi í Norður-Dakóta, fjarri öllu fjarskiptasambandi, þannig að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því að nokkur myndi vita nokkuð þar sem að við gætum leyst málin í sameiningu og ég farið sáttur. Svona gengur þetta fyrir sig.“

Ekki eini ráðherrann

Sigmundur segist ekki vera eini ráðherrann í ríkisstjórn sinni sem hafi fengið slík tilboð frá starfsmönnum vogunarsjóðanna.

„Ég var ekki sá eini sem komið var á máli við með einhver svona tilboð. Annar ráðherra í ríkisstjórninni upplýsti mig um það að menn hefðu reynt að nálgast hann í einhverjum svipuðum erindagjörðum.“

Geturðu upplýst okkur um hver það var?

„Nei ég kann nú ekki við það. Ég held það sé bara best að viðkomandi segi frá því ef það er áhugi á því.“

Aðspurður hvort honum hafi einhvern tíman verið hótað segir hann að skýr skilaboð hafi verið send þess efnis.

„Það er nefnilega það sem kannski stendur enn þá meira upp úr að þeir lögðu miklu meiri áherslu á það, sérstaklega þegar á leið þegar þeir komust ekkert áfram með hina nálgunina, þá fékk ég mjög skýr skilaboð um það að ég skildi ekki láta mér detta það í hug að þessir aðilar myndu láta það viðgangast að Ísland setti svona fordæmi eins og ég væri að reyna að búa til. Og það væru slíkir hagsmunir í húfi að ég hlyti að vita það, sem upplýstur maður, að ég fengi ekkert að klára þetta öðruvísi en að eitthvað kæmi á móti, hvort sem það væri gott eða illt.“

Er von á því að þú birtir þetta opinberlega?

„Ég birti smá kafla á miðstjórnarfundi hjá okkur á Akureyri fyrir einhverjum mánuðum, sýndi glærur, en já já, restina mun ég einhvern tíman birta.“

Hann segir þá menn sem hafa komið á tali við sig og reynt að semja við hann tengist ekki beint sölu á 30 prósenta hlut í Arion Banka, en að þeir séu á vegum sömu vogunarsjóða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×