Innlent

Sigmundur „bað ekki um nema tvennt“ en fékk hvorugt

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar um að bjóða sig fram til formanns flokksins valda sér vonbrigðum. Hún ætti þó „kannski ekki að koma mér á óvart miðað við það sem undan er gengið.“

Sigmundur ræddi ákvörðun Sigurðar Inga og hvað á undan hafði gengið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þegar Sigmundur steig til hliðar sem forsætisráðherra í kjölfar Wintris-málsins svokallaða sagðist hann hafa stungið upp á því að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra.

„Ég bað ekki um nema tvennt þegar við ræddum saman á sínum tíma,“ sagði Sigmundur.

Annað var að Sigurður myndi halda Sigmundi upplýstum og funda með honum um gang mála. Hitt var að Sigurður myndi ekki fara gegn Sigmundi í formannskjörinu í Framsóknarflokknum.

Sigmundur segir að frá þeim tíma hafi þeir nánast ekkert fundað og Sigurður þó fundað með leiðtogum allra annarra flokka. Hann sagðist hafa gengist eftir fundum og jafnvel óskað eftir fundi þar sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins væri með þeim. Það hafi ekki gengið eftir.

Hann segir Wintris-málið hafa verið „árás“ þar sem markmiðið hefði verið að koma honum frá. Fyrstu viðbrögð Sigmundar voru að hans sögn að berjast áfram, en svo hafi hann stigið til hliðar. Hann segist ekki hafa íhugað að stíga til hliðar bara til þess að stíga til hliðar.

Sigmundur sagði enn fremur að hann hefði ekki leitt hugann að því hver næstu skref hans yrðu, ef hann skyldi tapa gegn Sigurði.

Þá segir Sigmundur að hann sé sleginn yfir ákvörðun Sigurðar og sérstaklega þar sem hann hefði upplifað meiri stuðning frá almenningi en nokkurn tíman áður.

Hann sagði fjölmargt ókunnugt fólk hafa komið að sér á förnum vegi. Þau hafi sagt honum að þau hafi áttað sig á því hvað Wintris-málið var mikil aðför að honum og veitt honum stuðning. Fólk hafi jafnvel lofað því að kjósa Framsóknarflokkinn, ef Sigmundur verður áfram formaður.


Tengdar fréttir

Umræður á fundinum voru erfiðar en hreinskilnar

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hjó á hnútinn í Framsóknarflokknum í gær með því að bjóða sig fram til formanns flokksins. Prófessor í stjórnmálafræði segir óvenjuharkalegt uppgjör eiga sér stað innan flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×