Viðskipti erlent

Sérstakt pokagjald hefur dregið gríðarlega úr plastpokanotkun Breta

Atli Ísleifsson skrifar
Betur má ef duga skal, segir breski umhverfisráðherrann.
Betur má ef duga skal, segir breski umhverfisráðherrann. Vísir/Getty
Verulega hefur dregið úr plastpokanotkun Breta eftir að yfirvöld komu á sérstöku plastpokagjaldi, sem samsvarar um sex krónum á hvern plastpoka, hjá stóru verslunarkeðjunum síðastliðið haust.

Samkvæmt upplýsingum frá breskum stjórnvöldum hefur kaup á plastpokum dregist saman um 85 prósent á tímabilinu frá því að gjaldinu var komið á í október.

Breskir neytendur fóru heim með rúmlega 500 milljónum plastpoka úr verslunum sjö stærstu verslunarkeðja landsins á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við um sjö milljarða poka á árinu 2014. Umhverfisráðuneyti landsins gerir ráð fyrir að allt stefni í að hægt sé að spara um sex milljarða plastpoka í landinu í á árinu vegna aðgerðarinnar.

Umhverfisráðherrann Therese Coffey segir að þetta sýni að með því sem virðast vera smávægilegar aðgerðir sé hægt að gera miklar breytingar. Hún leggur þó áherslu á að ekki megi sofna á verðinum. „Við verðum alltaf að gera meira til að draga úr losun úrgangs og endurvinna það sem við nýtum,“ segir Coffey í samtali við Guardian.

Gjaldið var sett á alla þá poka sem neytendur fá í fyrirtækjum sem eru með að minnsta kosti 250 starfsmenn og á því ekki við smærri verslanir.

Markmiðið með átakinu var að draga úr plastnotkun og vernda dýralíf, sér í lagi fiska, þar sem mikið magn plasts endar í hafinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×