Viðskipti innlent

Selja tugi hjólhýsa á mánuði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hjólhýsin seljast miklu betur en fellihýsi og tjaldvagnar.
Hjólhýsin seljast miklu betur en fellihýsi og tjaldvagnar. fréttablaðið/ vilhelm
Tuttugu og fimm hjólhýsi hafa verið nýskráð það sem af er júlí. Þar af er einungis eitt notað. Þetta kemur fram í tölum Samgöngustofu. Fjórtán tjaldvagnar hafa verið skráðir en einungis tvö fellihýsi. Sala á ferðavögnum, það er fellihýsum, hjólhýsum og tjaldvögnum, hefur verið í jafnvægi undanfarin þrjú ár. Hjólhýsin seljast best. Salan er þó hvergi nærri eins góð og hún var fyrir bankahrun. Auk nýskráðu hjólhýsanna seljast notuð hjólhýsi vel.

Það eru einkum tveir aðilar sem selja ferðavagna hér á landi í dag, en það eru Víkurverk og Útilegumaðurinn. Víkurverk pantaði sextíu ný hjólhýsi inn fyrir sumarið og þau eru að verða uppseld. Kristín Anný Jónsdóttir, sölustjóri hjá Víkurverki, segist hafa orðið vör við söluaukningu í ár. „Það er mikil sala núna á nýjum hjólhýsum,“ segir hún. Mikil sala hafi verið bæði í júní og júlí. „Það eru eiginlega bara allir mánuðirnir búnir að vera góðir,“ segir hún.

Kristín Anný Jónsdóttir
Kristín Anný bendir samt á að leiðinlegt veður í sumar hafi orðið til þess að draga úr sölu á ferðavögnum. „Veðrið hefur áhrif og fólk hefur jafnvel komið og ætlað að skila lyklinum bara. Þegar það er endalaus rigning þá kemur uppgjöf í fólk. En fólk sækir þá líka meira í hjólhýsi. Það er bara þannig að fólk nennir ekki endalaust að vera með blautt fellihýsi,“ segir hún. 

Kristín Anný segir að vinsælustu hjólhýsin kosti 2–2,5 milljónir króna. „En hin seljast líka, fólk er mikið að skipta upp í dýrari,“ segir Kristín Anný og bætir því við að hjólhýsi seljist á alveg upp í sjö milljónir króna. Það er mikil sala á nýjum hjólhýsum og líka á notuðum. Kristín Anný segir að þótt hjólhýsin standi klárlega upp úr í sölu, hafi tjaldvagnar og fellihýsi einnig selst ágætlega á árinu. Þetta er í samræmi við fyrrgreindar tölur Samgöngustofu. Í júlímánuði voru 14 tjaldvagnar og tvö fellihýsi nýskráð. Á fyrri helmingi ársins voru 128 hjólhýsi, 27 tjaldvagnar og ellefu hjólhýsi nýskráð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×