Erlent

Segjast hafa fellt háttsettan ISIS-liða

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarískir sérsveitarmenn starfa náið með Peshmerga-sveitum Kúrda.
Bandarískir sérsveitarmenn starfa náið með Peshmerga-sveitum Kúrda. Vísir/EPA
Háttsettur meðlimur Íslamska ríkisins í Írak var felldur af bandarískum sérsveitarmönnum og Kúrdum á sunnudaginn. Um er að ræða einn af herleiðtogum ISIS í landinu og var hann meðlimur í æðsta ráði samtakanna. Hann hét Suleiman Abd Shabib al-Jabouri.

Steve Warren, talsmaður bandalagsins gegn ISIS, sagði að dauð Al-Jabouri myndi veikja stöðu ISIS í Írak verulega og að þeir myndu eiga erfiðara með að samræma árásir sínar og að verja svæði sitt.

Sjálfur vildi Warren ekki staðfesta að Al-Jabouri hefði verið felldur en Kúrdar gerðu það í yfirlýsingu til AFP fréttaveitunnar.

Bandarískir sérsveitarmenn starfa náið með Kúrdum í norðurhluta Írak. Í síðasta mánuði var tilkynnt að þeir hefðu handsamað háttsettan meðlim ISIS og að með því væri hægt að öðlast upplýsingar um staðsetningu annarra leiðtoga samtakanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×