Viðskipti innlent

Segja að ekki sé hægt að ganga endalaust í buddu neytenda

Stefán Árni Pálsson skrifar
Telja að umrædd gjaldtaka komi harðast niður á eldri borgurum.
Telja að umrædd gjaldtaka komi harðast niður á eldri borgurum.
Neytendasamtökin gera alvarlegar athugasemdir við þær fyrirætlanir íslensku bankanna að setja á laggirnar nýtt þjónustugjald sem sem felst í gjaldtöku af þeim sem óska eftir þjónustu gjaldkera.

Það er mat samtakanna að umrædd gjaldtaka komi harðast niður á eldri borgurum sem ekki greiði reikninga sína í heimabanka, sem og öðrum sem séu eru með litla tölvukunnáttu.

„Þá má einnig velta fyrir sér hvort öryggi sjálfvirkra bankaviðskipta sé slíkt að rétt sé að skylda neytendur á þennan hátt í þá átt, en skemmst er að minnast þess að óprúttnum aðilum tókst að setja upp lesara í einhverjum hraðbönkum og olli það fjölda korthafa, sem þá þurftu að sæta lokun korta sinna í einhvern tíma, bæði óhagræði og óþægindum,“ segir í frétt á síðu Neytendasamtakanna.

Þá hafa einnig vaknað upp spurningar hvort það standi til að taka upp sérstakt gjaldkeraálag í öllum tilvikum bankanna eða aðeins sumum.

„Þegar neytendur kaupa t.a.m. gjaldeyri greiða þeir þegar ríflega fyrir þá þjónustu með þeim mun sem er á kaup- og sölugengi erlendra gjaldmiðla hjá bönkunum. Væri því að mati Neytendasamtakanna fráleitt að innheimta jafnframt sérstakt gjaldkeragjald fyrir slíka þjónustu.“

Það er mat Neytendasamtakanna að það sé ekki endalaust hægt að ganga í buddu neytenda og afkoma þessara fyrirtækja gefi ekki tilefni að svo sé gert.

Samtökin benda einnig á að eldri borgarar séu sennilega sá viðskiptahópur sem bankarnir græði hvað mest á, þar sem sparifé þeirra liggi inná lágvaxtareikningum.

„Á meðan vaxtamunur er eins hár og raun ber vitni væri eðlilegra að veita þeim þjónustu umfram aðra frekar en að skerða hana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×