Innlent

Segir verkfall BHM geta dregist á langinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson segir aðstæður um margt ólíkar nú og áður en þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir á sínum tíma.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson segir aðstæður um margt ólíkar nú og áður en þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir á sínum tíma. Vísir/Anton
Sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum telur að verkfall opinberra starfsmanna geti dregist á langinn. Staðan á vinnumarkaði nú sé mjög flókin og ríkisstjórnin hafi gripið til ýmissa aðgerða við gerð síðustu fjárlaga, sem á undanförnum áratugum hafi ekki verið gert nema í tengslum við gerð kjarasamninga.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, er sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum. Í þættinum Sprengisandi hjá Fanneyju Birnu Jónsdóttur á Bylgjunni í morgun sagði hann margt í dag minna á ástandið eins og það var í aðdraganda þjóðarsáttarsamninganna árið 1990.

„Reyndar voru aðstæður þá talsvert öðruvísi varðandi verðbólguna. En það er svo sannarlega flókin staða uppi á vinnumarkaði,“ sagði Gylfi.

Þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir hafði hins vegar verið óðaverðbólga í landinu um nokkurra ára skeið sem menn vildu vinna á með þjóðarsáttarsamningunum, en nú vilji menn koma í veg fyrir að verðbólgan fari á skrið.

„Þá höfðu menn reynslu af því fyrir þjóðarsáttarsamningana að kjarasamningar voru gerðir til mjög stutts tíma. Ég hef skoðað lengd kjarasamninga fyrir þjóðarsáttarsamningana. Þá voru meðalkjarasamningar gerðir til þrettán mánaða. En eftir að þjóðarsáttarsamningarnir eru gerðir eru kjarasamningar gerðir til 38 mánaða,“ segir Gylfi.

Skammtíma samningar eru yfirleitt gerðir þegar lítið traust ríkir á milli aðila á vinnumarkaðnum og stjórnvalda. En í desember 2013 voru gerðir samningar sem hugsaðir voru sem aðfararsamningar að lengri kjarasamningum síðast liðið haust. Sú hugmyndafræði hrundi þegar ýmsir hópar eins og flugmenn, læknar og kennarar gerðu kjarasamninga með mun meiri launahækkunum en desembersamningarnir fólu í sér.

Gylfi Dalmann segir ríkisstjórnina hafa gripið til ýmissa aðgerða við gerð síðustu fjárlaga sem alla jafna hafi ekki verið gert á undanförnum áratugum nema í tengslum við kjarasamninga.

„Og hugsanlega hefði það getað verið einhver útfærsla eða leið í lausn kjarasamninga. En menn ákváðu bara að gera það á undan. Við sáum að í þjóðarsáttarsamningunum var þetta allt gert samhliða kjarasamningum sem þá voru gerðir. Þannig að þá kemur ríkisvaldið með einhvers konar útfærslu. Við erum náttúrlega með þennan launamun og allt öðruvísi umhverfi opinberra starfsmanna, af því þeir eru í verkfalli núna og ég á ekki endilega von á því að þessar kjaradeilur opinberra starfsmanna leysis fljótlega,“ segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson.


Tengdar fréttir

Forgangsröðun og fjármögnun nýs spítala

Fáir læknar tjáðu sig um vinnuaðstöðu og tækjakost á LSH fyrir verkfall. Fyrst í lok janúar birtist grein í Mbl. eftir Stefán A. Matthíasson lækni, sem sagði að í stað byggingar sjúkrahótels væri fjármunum betur varið til kaupa á tækjum, sem bráðvantar.

Kjúklinga- og svínaræktun í hættu vegna verkfallsaðgerða

Verkfall dýralækna getur stórskaðað kjúklinga- og svínaframleiðslu. Stórvandamál á nokkrum dögum, segir formaður Bændasamtakanna. Verður að huga að velferð dýranna, segir framleiðandi. Enginn kjötinnflutningur.

Afleitt að ekki sé samningafundur um helgina

Formaður Bandalags háskólamanna gagnrýnir að enginn samningafundur sé fyrirhugaður í kjaradeilu BHM og ríkisins um helgina. Mikið ber enn í milli og lítið sem ekkert hefur þokast í samkomulagsátt. Tæpur hálfur mánuður er nú síðan að verkfallsaðgerðir BHM hófust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×