Erlent

Segir Norður-Kóreu frjálslynt og glaðlegt land eftir heimsókn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Liðsmenn hljómsveitarinnar Laibach eru hrifnir af Norður-Kóreu.
Liðsmenn hljómsveitarinnar Laibach eru hrifnir af Norður-Kóreu. NordicPhotos/AFP
„Norður-Kóreumenn vilja opna land sitt fyrir umheiminum, en einungis hægt og rólega og á eigin forsendum,“ segir Ivo Saliger í viðtali við tímaritið Rolling Stone. Saliger er söngvari slóvensku hljómsveitarinnar Laibach sem varð á dögunum fyrsta vestræna hljómsveitin til að spila í einræðisríkinu Norður-Kóreu.

„Norður-Kórea er einkar frjálslynt land og kannabis er í sjálfu sér löglegt þar. Svo framleiða Norður-Kóreumenn frábæran bjór og þar eru mörg góð brugghús. Manni er frjálst að drekka úti á götu og reykja á skemwmtistöðum,“ sagði Laibach sem telur mynd Vesturlandabúa af ríkinu ekki rétta.

„Fyrstu viðbrögð okkar við komuna til landsins var að það væri einmitt eins og við bjuggumst við en samt svo frábrugðið því. Það má vel vera að landið sé fátækt og einangrað og að íbúar búi við kúgun stjórnvalda en íbúarnir eru glaðir og virðast búa yfir fágætri vitneskju sem okkur vantar,“ segir Saliger.

„Allir Vesturlandabúar elska að hata Norður-Kóreu en slúðursögurnar um landið eru uppspuni. Íbúarnir borða ekki börn, mönnum er ekki fleygt fyrir hundana og fólk er ekki að svelta,“ segir Saliger.

Um þúsund manns sóttu tónleikana fyrr í mánuðinum. „Til eru alls kyns tónlistarstefnur, nú vitum við að þessi er líka til,“ hefur BBC eftir einum tónleikagesta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×