Innlent

Segir dóttur sína ekki hafa þurft að deyja

Heimir Már Pétursson skrifar
Faðir konu sem lést í ágústmánuði m.a. vegna ofneyslu morfínlyfja sem hún fékk ávísað frá einum og sama lækninum segist hafa heyrt í fjölda fólks sem hafi sömu sögu að segja af óhóflegum lyfjaávísunum lækna. Hann telur kerfið hafa brugðist dóttur hans.

Markús Kristjánsson greindi frá sögu Elísabetar fjörtíu og fjögurra ára gamallar dóttur sinnar í Fréttablaðinu fyrir viku en hún lést í ágúst síðast liðnum m.a. vegna óhóflegrar neyslu morfínlyfja. Síðustu fimm mánuðina sem hún lifði fékk hún meira en 2.200 morfíntöflur ávísaðar af einum og sama lækninum. En vandamál hennar byrjuðu fyrir um tveimur árum þegar hún leitaði sér lækninga vegna veikinda í meltingarvegi.

Elísabet heitin skildi eftir sig mikið magn af lyfjum, eins og sést í viðtali Heimis Más við Markús í dag.

„En hún var búin að plokka sterkustu morfínlyfin úr daglegum skömmtum sínum“ segir Markús. Þá hafi margt fólk haft samband við hann og greint frá lyfjavanda barna sinna. Fólk þori hins vegar ekki að gera sögur sínar opinberar þar sem börn þeirra í lyfjavanda sé enn á lífi.

Markús segir dóttur hans hafi vegnað best þegar hún fékk aðhlynningu á geðdeild en það hafi verið í allt of skamman tíma. Í fréttum okkar á mánudag greindum við frá því að engar sjálfvirkar viðvörunarbjöllur fara í gang hjá Landlækni þegar ávísað er mikið af ávanabindandi lyfjum á fólk, jafnvel af sama lækninum. En það stendur til bóta með gagnagrunni sem verður öllum læknum opinn innan nokkurra mánaða. Markús segir verulegra úrbóta þörf.

Hann telur að dóttir hans hafi misst lífið vegna mistaka margra í heilbrigðiskerfinu.

„Þetta hefði ekki þurft að fara svona ef hún hefði fengið rétta aðstoð,“ segir Markús m.a. í viðtalinu við Heimi Má sem sjá má hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×