Viðskipti innlent

Seðlabankinn vill friðhelgi starfsmanna gegn lögsóknum

ingvar haraldsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Seðlabanki íslands vill að starfsmenn þeirra verði tryggð ákveðin friðhelgi gegn lögsóknum í starfi þeirra fyrir bankann. Þetta kemur fram í lokaskýrslu nefndar um endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn hafi bent á að í neyðarlögunum svokölluðu hafi verið kveðið á um að forstjóri, starfsmenn eða stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins væru ekki skaðabótaskyldir vegna þeirra sérstöku ráðstafana sem heimilar voru í lögunum.

Í skýrslunni sem hagfræðiprófessorarnir Friðrik Már Baldursson og Þráinn Eggertsson skrifuðu kemur fram að almennt sé litið svo á að mikið þurfi að koma til svo starfsmenn Seðlabankans beri persónulega ábyrgð á störfum sínum. Þeir þurfi að fara verulega út fyrir starfssvið sitt eða valdi tjóni af stórfelldu gáleysi til að bera ábyrgð á því persónulega.

Dæmi séu um að stjórnendur Seðlabankans hafi veitt tilgreindum starfsmönnum vernd í formi yfirlýsinga um skaðleysi.

Þá hafi Ríkisendurskoðun talið að bankaráði Seðlabankans sé heimilt að greiða kostnað af málaferlum seðlabankastjóra við bankann.

Því virðist vera fordæmi fyrir því að Seðlabankinn veiti þeim sem vinna fyrir bankann skaðleysi án þess að lögum verði breytt. Nefndin leggur engu síður til að ábendingar bankans verði teknar til skoðunar í fjármálaráðuneytinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×