Erlent

Sameinuðu þjóðirnar hyggjast rannsaka dauða Hammarskjöld á ný

Bjarki Ármannsson skrifar
Hammarskjöld fórst með flugvél af gerðinni Douglas DC-6 ásamt fjórtán öðrum í Sambíu árið 1961.
Hammarskjöld fórst með flugvél af gerðinni Douglas DC-6 ásamt fjórtán öðrum í Sambíu árið 1961. Vísir
Sameinuðu þjóðirnar hyggjast hefja rannsókn að nýju á dauða Dag Hammarskjöld, fyrrum framkvæmdastjóra samtakanna. Rannsóknin hefur verið boðuð í kjölfar þess að rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu fyrir um einu og hálfu ári að haldbær sönnunargögn séu fyrir því að Hammarskjöld hafi verið ráðinn bani.

Dag Hammarskjöld, sænskur diplómati sem tók við stöðu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna árið 1953, lést í flugslysi í Sambíu árið 1961. Þeirri tilgátu hefur oft verið fleygt fram að flugvél hans hafi verið skotin niður en rannsókn Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma komst ekki að lokaniðurstöðu í málinu.

Í september árið 2013 sagði hinsvegar rannsóknarnefnd skipuð fjölþjóðlegum hópi lögfræðinga að haldbær sönnunargögn væru fyrir því að Hammarskjold hafi verið ráðinn bani. Nefndin segir að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hafi í vörslu sinni hljóðritanir úr stjórnklefa flugvélarinnar sem bendi til þess að hún hafi verið skotin niður.

Í skýrslu nefndarinnar var meðal annars greint frá játningu belgísks flugmanns sem segist hafa skotið á vélina og samkvæmt vitnisburði fólks á jörðu niðri sáust leiftrandi ljós á himni rétt áður en vél Hammarskjölds brotlenti.

Hammarskjöld var á leið til Austur-Kongó er hann lést til að stýra friðarviðræðum milli stríðandi fylkinga í landinu. Annars vegar sitjandi ríkisstjórn, sem studd var af Sovétríkjunum, og uppreisnarmönnum frá Katanga-héraðinu, sem áttu sér auðuga bakhjarla á Vesturlöndum.

Sameinuðu þjóðirnar munu fara yfir hinar nýju upplýsingar sem liggja fyrir í málinu en von er á skýrslu frá þeim í lok júní, að því er BBC greinir frá.


Tengdar fréttir

Telja Hammarskjöld hafa verið ráðinn bani

Rannsóknarnefnd skipuð fjölþjóðlegum hópi lögfræðinga telur að hefja eigi rannsókn á dauða Dag Hammarskjöld, fyrrum framkvæmdastjóra Sameinu þjóðanna, sem fórst í flugslysi árið 1961.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×