Viðskipti innlent

S8 selst tvöfalt hraðar en forverarnir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
S8-línan selst í bílförmum
S8-línan selst í bílförmum samsung
Samsung Galaxy S8 og Galaxy S8 Plus-snjallsímarnir seljast tvöfalt hraðar en forverar þeirra, Galaxy S7 og Galaxy S7 Edge, í Suður-Kóreu ef marka má tilkynningu frá Samsung í morgun. Nýju gerðirnar tvær höfðu selst í rúmlega milljón eintökum þar í landi í gær, 37 dögum eftir að þær komu á markaðinn.

Samsung var hins vegar 74 daga að selja milljón eintök af Galaxy S6 og 75 daga að selja þann fjölda Galaxy S7-síma. Hefur S8-línan því selst tvöfalt hraðar sem fyrr segir. Forráðamenn suður-kóreska fyrirtækisins segja að ef marka má reynslu fyrri ára skuli ekki gera ráð fyrir öðru en að nýja línan haldi áfram að seljast á svipuðum hraða næstu mánuði. 

Símarnir hafa nú selst í rúmlega 5 milljónum eintaka um allan heim.

Vinsældir S8-línunnar ættu í raun ekki að koma á óvart enda hafði áhugi neytenda gefið til kynna að hún myndi seljast í bílförmum. Um tvöfalt fleiri S8-símar voru forpantaðir en S7 en alls voru um 550 þúsund eintök forpöntuð af síðarnefnda símanum.

Vinsældir nýja símans eru ekki síst raktar til uppfærslunnar sem ýtt var úr vör þann 1. maí. Henni fylgdi meðal annars kóreskumælandi útgáfa af Bixby gervigreindaraðstoðarmanninum og talið er að rúmlega 160 þúsund eintök af S8-símum hafi selst þann þann sama dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×