Innlent

Rútuslys á Þingvallavegi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúta með fjörutíu og tvo farþega innanborðs, flestir ferðamenn frá Kína, fór á hliðina við Skálafellsafleggjara á Þingvallavegi rétt upp úr klukkan tíu í morgun. 

Vísir hefur flutt fregnir af málinu í morgun en hér að neðan er það sem við vitum um málið.


  • Rúta með 42 innanborðs, flestir kínverskir ferðamenn, valt upp úr klukkan tíu í morgun við Skálafellsafleggjara á hálum Þingvallavegi
  • Viðbragðsáætlun almannavarna var virkjuð eftir tilkynningu klukkan 10:18 og mikill fjöldi sjúkrabíla, lögreglubíla, tækjabíla slökkviliðs og björgunarsveitarfólk sent á vettvang
  • Tveir eru á gjörgæslu en alls sautján farþegar voru fluttir á Landspítalann. Hinir 27 voru fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða Krossins í Mosfellsbæ sem var opnuð vegna slyssins
  • Bílstjóri og leiðsögumaður voru íslenskir en rútan var á vegum Skagaverks ehf
  • Rútan var ekki á nagladekkjum en á góðum dekkjum að sögn forsvarsmanns Skagaverks
  • Búið er að rétta af rútuna
Uppfært klukkan 10:40

Mikill viðbúnaður er vegna slyssins og hefur sjúkrabílum og sjúkraflutningamönnum frá Reykjavík og Selfossi verið stefnt á vettvang. Þá eru tækjabílar frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu á leiðinni á vettvang auk mannskaps frá björgunarsveitunum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út en verið er að kanna veðurskilyrði á vettvangi til að svara þeirri spurningu hvort hún geti athafnað sig.

Frá vettvangi á tólfta tímanum.Vísir/Hulda
Uppfært klukkan 10:55

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að Þingvallarvegi hafi verið lokað vegna slyssins og mikill viðbúnaður sé á vettvangi. Fólk sé beðið að vera ekki á svæðinu og sýna björgunaraðilum skilning vegna starfa á vettvangi.

Uppfært klukkan 11:20

Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum voru um 20-30 manns í rútunni og nokkrir slasaðir. Klippa þurfti tvo úr rútunni og er búið að ná öðrum út.

Um tíu sjúkrabílar hafa verið sendir á vettvang og reiknað með því að nota þurfi þá alla til að sinna fólki. Rútan liggur á hliðinni nærri afleggaranum hjá Skálafelli.

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu og sjúkraliði vegna slyssins.Kort/Loftmyndir.is
Áfallateymi Rauða krossins er á vettvangi og „minna slasað“ fólk verður flutt í fjöldahjálparstöð Mosfellsbæjardeildar Rauða Krossins.

Uppfært klukkan 11:25

Að minnsta kosti sex sjúkrabílar eru ýmist komnir á Landspítalann eða á leiðinni til Reykjavíkur með slasaða farþega.

Uppfært klukkan 11:50

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í samtali við Vísi að fimm til sjö séu alvarlega slasaðir. Fleiri eru minna slasaðir.

Uppfært klukkan 12:00

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var rútan illa útbúin þegar kemur að dekkjavali. Þingvallavegur er enn lokaður í báðar áttir, stórir dráttarbílar eru mættir á vettvangi, búið er að ferja alla farþega úr rútunni en enn er hált á veginum og veður vont.

Uppfært klukkan 12:10

Lögregla sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu upp úr klukkan tólf.

Rúta með erlenda ferðamenn hafnaði utan vegar við Þingvallaveg, nálægt Skálafellsafleggjaranum, á ellefta tímanum í morgun. Talið er að um 40 farþegar hafi verið um borð í rútunni, auk ökumanns og farþega. 

Fjölmennt lið björgunaraðila hélt þegar á vettvang, en strax var ljóst að um alvarlegt slys var að ræða. Slasaðir voru fluttir á Landspítalann, en jafnframt var fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ virkjuð.  Aðgerðir á vettvangi standa enn yfir og Þingvallavegur er áfram lokaður.

Lögreglan ítrekar að þeir sem kunna að hafa tekið upp farþega á svæðinu láti vita tafarlaust um slíkt í síma 112. Mjög áríðandi eru þessar upplýsingar komi strax fram svo hægt sé að tryggja að allir sem voru um borð í rútunni séu komnir i leitirnar.

Leiðsögumaður og ökumaður rútunnar eru íslenskir, en meirihluta farþeganna kínverskir.


Uppfært klukkan 12:25

Rútan var á vegum hópbílafyrirtækisins Skagaverks. Gunnar Þór Gunnarsson, forsvarsmaður fyrirtækisins, segir að rútan hafi verið á góðum dekkjum, þó ekki nagladekkjum.

Uppfært klukkan 12:35

Unnið er að því að rétta við rútuna en fjölmiðlar voru beðnir um að mynda ekki á meðan sú framkvæmd stæði yfir.

Uppfært klukkan 12:45

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum voru fimmtán fluttir á Landspítalann vegna meiðsla og eru tveir á gjörgæslu.

Uppfært klukkan 13:00

Lögregla sendir frá sér tilkynningu vegna slyssins:

Fjörutíu og tveir voru um borð í rútunni sem hafnaði utan vegar við Þingvallaveg á ellefta tímanum í morgun, en tilkynning um slysið barst lögreglu klukkan 10.18. Fimmtán þeirra voru fluttir á Landspítalann, en hinir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ. Lögreglan ítrekar að aðgerðir á vettvangi standa enn yfir og Þingvallavegur er áfram lokaður.

Eins og fram hefur komið eru leiðsögumaður og ökumaður rútunnar íslenskir, og flestir farþeganna kínverskir. Viðkomandi sendráð hafa verið upplýst um slysið.



Uppfært klukkan 13:10

Búið er að gera grein fyrir öllum farþegum rútunnar, ferðamönnunum fjörutíu sem voru langflestir Kínverjar og leiðsögumanninum og rútubílstjóranum sem eru íslenskir. Fimmtán voru fluttir á Landspítalann en hinir í fjöldahjálparstöð Rauða Krossins í Mosfellsbæ. Þá er búið að rétta af rútuna.



Uppfært klukkan 13:27: Viðbúnaðarstig er ekki lengur í gildi á Landspítalanum vegna slyssins.

Uppfært klukkan 13:39: Alls voru 27 farþegar úr rútunni fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ. Í viðtali við fréttastofu segir Guðný Björnsdóttir sviðsstjóri hjá Rauða krossinum að þar af hafi fjórir verið fluttir til frekari aðhlynningar á heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ og einn á slysadeild í Reykjavík.

Aðspurð hvernig gengið hafi að ræða við farþegana segir Guðný að einn þeirra hafi kunnað smá hrafl í ensku en annars væri það líkamstjáningin sem gildir en flestir farþeganna tala mandarín.

Uppfært klukkan 14:58: Alls voru sautján farþegar fluttir á Landspítalann en samkvæmt upplýsingum þaðan voru tveir farþegar fluttir á spítalann af heilsugæslunni í Mosfellsbæ.

Uppfært klukkan 15:58: Samkvæmt heimildum fréttastofu var rútan á lítið slitnum sumardekkjum. Hálka var á veginum en í dag hafa þrír hópferðabílar farið út af vegum á Suðurlandi vegna hálku og erfiðra aðstæðna. Þingvallavegi var lokað vegna slyssins en hann hefur nú verið opnaður.



Fjölmargir björgunarsveitarmenn aðstoðuðu farþega á vettvangi.Vísir/Vilhelm
Páll Mattíasson, forstjóri Landspítalans, segir að fimm til sjö séu alvarlega slasaðir. Mikill viðbúnaður er á Landspítalanum vegna slyssins.Vísir/Vilhelm
vísir/vilhelm
Fjöldi lögreglumanna, sjúkraflutningsmanna og björgunarsveitarmanna kom að aðgerðum.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Flestir farþegar rútunnar kínverskir

Meirihluti farþeganna sem voru um borð í rútu sem hafnaði utan vegar á Þingvallavegi í morgun er kínverskur en ökumaður rútunnar og leiðsögumaður eru íslenskir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×