Viðskipti erlent

Rússar tilbúnir til að auka olíuframleiðslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá blaðamannafundi olíuframleiðenda í febrúar. Alexander Novak er til hægri á myndinni.
Frá blaðamannafundi olíuframleiðenda í febrúar. Alexander Novak er til hægri á myndinni. Vísir/EPA
Rússar tilkynntu í dag að þeir væru tilbúnir til að auka framleiðslu olíu í áður óþekktar hæðir. Viðræður olíuríkja um að koma í veg fyrir framleiðsluaukningu mistókust nýverið og Sádi-Arabía hótaði að auka framleiðslu sína gífurlega.

Yfirvöld Venesúela telja að olíuverð gæti hrunið aftur á næstu vikum, komist olíuframleiðendur ekki að samkomulagi um að draga úr framboði.

Venesúela og Rússar hafa fengið aðrar þjóðir að samningaborðinu en það slitnaði upp úr viðræðum þeirra á sunnudaginn. Yfirvöld í Sádi-Arabíu neituðu að skrifa undir samkomulag um að frysta framleiðslu, nema Íran myndi einnig skrifa undir samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Yfirvöld Íran segjast staðráðin í því að auka olíuframleiðslu sína verulega eftir að viðskiptaþvinganir gegn þeim voru afnumdar í janúar. Með því vilja þeir ná þeirri markaðsstöðu sem þeir höfðu áður.

Sádar hótuðu hins vegar að auka framleiðslu sína um tvær milljónir tunna á dag, eða upp í tólf milljónir. Það myndi gera Sádi-Arabíu að stærsta olíuframleiðenda heims, en Rússar framleiða nú mest af olíu.

Í dag sagði Alexander Novak, orkuráðherra Rússlands, að þeir gætu einnig aukið framleiðslu í allt að þrettán milljónir tunna á dag. Nú framleiða Rússar um ellefu milljónir.

Olíuverð fór niður fyrir 30 dali á tunnu í janúar, eftir að hafa verið allt að 115 dalir um mitt ár 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×