Viðskipti innlent

Rúmlega 20 milljarða búhnykkur fyrir ríkissjóð

Heimir Már Pétursson skrifar
Arðgreiðslur Landsbankans til ríkissjóðs á þessu ári voru vanmetnar um tuttugu og einn og hálfan milljarð króna í fjárlögum þessa árs. Bankastjóri Landsbankans segir að það sé stefna hans að vera arðgreiðslubanki og ríkið megi því vænta þess að yfir 80 prósent af árlegum arði hans renni í ríkissjóð.

Það er óhætt að segja að rekstur viðskiptabankanna standi í miklum blóma þessi misserin. Samanlagður hagnaður þeirra á síðasta ári var 108 milljarðar króna og eigiðfé þess stærsta, Landsbannkans, var 264,5 milljarðar króna í lok síðasta árs. Það er langt umfram viðmið Fjármálaeftirlitsins.

Tekjur Landsbankans jukust töluvert í fyrra, ekki vegna hækkunar þjónustugjalda að sögn Steinþórs Pálssonar bankastjóra, heldur vegna aukinna umsvifa og hagstæðrar þróunar á fjármálamörkuðum. Hvað sem því líður hagnast ríkissjóður sem eigandi bankans á öllu saman.

„Þetta var góður gangur hjá okkur á síðasta ári. Við erum að skila góðu uppgjöri. Það er aukning í tekjum, kostnaður er að lækka. Fjárhagsstaðan gríðarlega sterk, sem gerir það að verkum að við förum í það að leggja til (við aðalfund) að það verði greiddur mjög myndarlegur arður. Eða 28,5 milljarðar vegna síðasta árs,“ segir Steinþór.

Sem er góður búhnykkur upp á 21,5 milljarð króna fyrir ríkissjóð en aðeins var gert ráð fyrir 7 milljörðum í arð frá bankanum í fjárlögum þessa árs. Að auki greiðir bankinn 13,1 milljarð króna í skatt vegna ársins í fyrra.

Hagrætt hefur verið í bankanum og starfsólki fækkað um 65 þrátt fyrir sameiningu við tvo lífeyrissjóði. Bankinn greiðir nú 80 prósent hagnaðar og 10 prósent eiginfjár síns í arð. Bankastjórinn segir að stefnu bankans að vera arðgreiðslubanki fyrir eiganda sinn.

Ríkissjóður getur því áfram vænst þess að fá góðan arð af bankanum á komandi árum.

„Já, við reiknum með að borga stærri hluta hagnaðar í arð. Hagnaður hefur verið mjög mikill nú á síðustu árum. Við eigum þó frekar von á að hann lækki í ljósi þess að hluti af tekjum eru óreglulegir liðir sem við getum ekki reiknað okkur inn í framtíðina,“ segir Steinþór.

Enda sé bankinn búinn að selja megnið af þeim fyrirtækjum sem hann fékk vegna hrunsins, þótt hann eigi enn um 15 milljarða í hlutabréfum í fyrirtækjum sem eftir eigi að selja.

„Við eigum ennþá hlutabréfaeignir. Tæpa 30 milljarða í hlutabréfum en þar af er um helmingur eignir sem við eigum eftir að selja frá okkur,“ segir Steinþór.  En bankinn eigi yfirleitt ekki meira en 20% hlut í þeim fyrirtækjum sem hann eigi eftir að selja. Þar megi nefna FSÍ  (Fjárfestingasjóð Íslands), Stoðir sem byggi á erlendri eign og svo Eyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×