Erlent

Rudy Guiliani: Ég hef bjargað lífum fleiri svartra en Beyoncé

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fyrrum borgarstjóri New York segir að atriði Beyoncé um helgina hafi verið til skammar.
Fyrrum borgarstjóri New York segir að atriði Beyoncé um helgina hafi verið til skammar. Vísir/Getty
Rudy Guiliani, fyrrum borgarstjóri New York, segir að hann hafi með stefnu sinni sem borgarstjóri bjargað lífum fleiri svarta einstaklinga en söngkonan Beyoncé muni nokkurn tíman gera. Guiliani er ósáttur við atriði Beyoncé á VMA-verðlaunahátíðinni um helgina.

Atriði hennar hófst á því að dansararnir í kringum hana féllu á sviðið. Vísaði það til svartra einstaklinga sem látið hafa lífið eftir að hafa verið skotnir af lögreglumönnum í Bandaríkjunum. Beyoncé hefur verið ákafur talsmaður umbóta í lögreglunni svo koma megi í veg fyrir fleiri skotárásir af hálfu lögreglumanna í Bandaríkjunum sem eru algeng þar í landi.

Guilaini, sem gegndi embætti borgarstjóra New York á árunum 1994 til 2001 segir að atriði Beyoncé hafi verið til skammar.

„Ég bjargaði mun fleiri lífum svartra einstaklinga en nokkur af þeim sem þið sáuð upp á sviði,“ sagði Guiliani. „Aðgerðir sem ég hleypti af stað drógu úr tíðni glæpa, þá sérstaklega morða, um 75 prósent. Vegna þess eru um fjögur til fimm þúsund svartir einstaklingar á lífi.“

Sjá einnig: Magnaður flutningur Beyoncé á VMA

Glæpatíðni lækkaði í New York í borgarstjóratíð Guiliani en sérfræðingar hafa bent á að slíkt hið sama megi segja um Bandaríkin öll. 

„Glæpatíðni lækkaði út um öll Bandaríkin á þessum tíma. Guiliani vill þá kannski líka eigna sér heiðurinn af því að glæpatíðni lækkaði í San Diego, Houston eða öðrum borgum Bandaríkjanna?“ spurði Jeffrey Fagan sem starfar hjá Columbia-háskólanum í New York

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guiliani gagnrýnir Beyoncé en hann hjólaði í hana eftir Super Bowl-leikinn fyrr á árinu. Taldi hann söngkona hafa nýtt sér tækifærið til þess að gera lítið úr lögreglumönnum í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Magnaður flutningur Beyoncé á VMA

Tónlistarkonan Beyoncé kom, sá og sigraði á VMA-hátíðinni í New York í gærkvöldi en VMA er tónlistarmyndahátíð sjónvarpsstöðvarinnar MTV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×