Innlent

Rotta réðst á unglingspilt í vesturbæ Reykjavíkur

Randver Kári Randversson skrifar
Kolbeinn Egill Þrastarson var bitinn í fingurinn af rottu.
Kolbeinn Egill Þrastarson var bitinn í fingurinn af rottu. Mynd/úr einkasafni
„Rottan hoppaði á hendina á mér og hékk í puttanum og hvæsir síðan á mig og hoppaði upp tröppurnar“, segir Kolbeinn Egill Þrastarson, 15 ára unglingspiltur, sem varð fyrir fólskulegri árás nálægt heimili sínu vesturbæ Reykjavíkur, nú síðdegis. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þessu. 

Í fyrstu hélt hann að þarna væri mús á ferð, sem hann ákvað að elta niður kjallaratröppur, en með fyrrgreindum afleiðingum. Skömmu síðar kom vinur hans, Ómi Freyr, aðvífandi og rottan losaði þá takið og lagði á flótta. Eftir nokkurn atgang tókst þeim að fanga rottuna, sem hafði hrellt íbúa á Melhaga í dag, í kassa.

Kolbeinn komst ekki klakklaust frá þessum eltingarleik, en hann var bitinn í fingurinn og fékk sýkingu í kjölfarið. Kolbeinn fór ásamt móður sinni á bráðamóttöku Landspítalans en þau komust ekki að þar, þrátt fyrir um 2 klukkustunda bið.

Þau sneru sér því til Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi, þar sem hann fékk strax sprautu við stífkrampa og var því næst settur á sýklalyf.

Rottan, aftur á móti, fékk makleg málagjöld þar sem hún var fjarlægð af meindýraeyði og meðhöndluð á viðeigandi hátt. 

Visir/Vilhelm
Visir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×