Enski boltinn

Rodgers: Vorum frábærir í 65 mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers. Mynd/NordicPhotos/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, horfði upp á sína menn tapa sínum fyrstu stigum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið gerði 2-2 jafntefli á móti Swansea í Wales.

„Við vorum mjög mjög góðir fyrstu 65 mínúturnar hvort sem það var með eða án bolta. Við sýndum líka karakter eftir að hafa lent undir svona snemma í leiknum," sagði Brendan Rodgers.

„Eftir frábærar fyrstu 65 mínúturnar þar sem við skoruðu tvö mörk þá þurftum við að halda út í vörninni síðustu 25 mínúturnar. Þetta verður mjög mikilvægt stig fyrir okkur," sagði Rodgers.

„Það breytti flæðinu hjá okkur þegar Philippe Coutinho fór af velli því Iago Aspas er miklu meiri framherji," sagði Rodgers. Hann tók Coutinho af velli á 54. mínútu vegna meiðsla en þá var staðan 2-1 fyrir Liverpool.

Brendan Rodgers setti Victor Moses inn í byrjunarliðið og Moses skoraði í sínum fyrsta leik í búningi Liverpool.

„Victor Moses hefur alltaf spilað vel hérna og ég hafði góða tilfinningu fyrir honum í kvöld því hann skoraði hérna með Chelsea í fyrra," sagði Rodgers.

Rodgers bíður eftir endurkomu Luis Suarez. „Mjög fljótlega kemur einn besti leikmaður heims aftur inn í okkar lið. Ég er viss um að við verðum betri og betri eftir því sem líður á tímabilið," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×