Enski boltinn

Rio: Mátti sjá hvað Van Persie var svekktur þegar Ferguson hætti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sir Alex Ferguson og Robin van Persie áttu í góðu sambandi, en Skotinn hætti eftir að stýra honum í eina leiktíð.
Sir Alex Ferguson og Robin van Persie áttu í góðu sambandi, en Skotinn hætti eftir að stýra honum í eina leiktíð. vísir/getty
Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir í viðtali við sjónvarpsstöð félagsins að það hafi haft mest áhrif á hollenska framherjann Robin van Persie þegar Sir Alex Ferguson ákvað að hætta sem knattspyrnustjóri félagsins á vormánuðum í fyrra.

Ferguson keypti Van Persie frá Arsenal fyrir það sem varð svo síðasta leiktíð Skotans við stjórnvölinn hjá United, en Van Persie fór gjörsamlega á kostum er liðið tryggði sér 20. Englandsmeistaratitilinn.

„Þetta kom illa við alla, en gaf okkur þó aukinn kraft til að klára þá leiktíð með krafti og vinna deildina,“ segir Rio um ákvörðun Fergusons.

„Það voru allir mjög þakklátir fyrir það sem hann gerði fyrir okkur. Sá leikmaður sem þetta kom verst við var Robin. Hann var nýkominn og fékk aðeins að bragða af velgengni. Hann vildi meira. Það mátti alveg sjá að hann tók þessu verr en aðrir á þeim tíma,“ segir Rio Ferdinand.

Manchester United hafnaði í sjöunda sæti undir stjórn DavidsMoyes í fyrra, en Ryan Giggs stýrði liðinu í síðustu leikjunum eftir að hann var rekinn. Liðið er nú í tólfta sæti með fimm stig eftir fimm umferðir undir stjórn Louis van Gaal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×