Erlent

Rifu skyrtur og jakka yfirmanna hjá Air France

Atli Ísleifsson skrifar
Störf um 2.900 starfsmanna Air France eru í hættu.
Störf um 2.900 starfsmanna Air France eru í hættu. Vísir/AFP
Nokkur hundruð starfsmanna Air France mótmæltu við höfuðstöðvar franska flugfélagsins fyrr í dag þegar fundur stóð yfir þar sem niðurskurðartillögur stjórnar félagsins voru til umræðu.

Mótmælendur rifu í skyrtur og jakka tveggja yfirmanna hjá flugfélaginu og þurftu þeir að flýja frá ósáttum mótmælendum í fylgd lögreglu með því að klifra yfir girðingu.

Mótmælin áttu sér stað við höfuðstöðvar Air France í Roissy fyrir utan París.

Franskir fjölmiðlar greina frá því að starfsmannastjórinn Xavier Broseta hafi verið annar þeirra sem ráðist var á.

Mannfjöldinn kom saman til að mótmæla fyrirhuguðum aðhaldsaðgerðum félagsins sem fela meðal annars í sér að 2.900 starfsmenn gætu misst vinnuna. Félagið segir að grípa verði til aðgerða eftir að mistókst að fá flugmenn til að samþykkja að vinna lengri vinnutíma.

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, fordæmdi aðgerðir mótmælenda eftir að hafa séð myndir frá vettvangi.

Sjá má myndband frá mótmælunum að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×