Viðskipti erlent

Reiknað með að iPhone 8 verði mun dýrari

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gagnalekar frá bandaríska tæknirisanum Apple gefa til kynna að fyrirtækið muni verðleggja iPhone 8 mun hærra en aðra iPhone-síma sína. Reiknað er með að samhliða iPhone 8 verði iPhone 7s einnig kynntur.

Reiknað er með að iPhone 7s muni líta út á sambærilegan hátt og iPhone 7 og iPhone 6 og fá hefðbundna uppfærslu en Apple uppfærir síma sína með betri myndavélum og ýmsum búnaði. Þá er einnig gert ráð fyrir að nýr litur verði kynntur til sögunnar.

Á sama tíma virðist Apple ætla sér að kynna iPhone 8 og þar muni miklar breytingar eiga sér stað frá þeim iPhone símum sem Apple hefur þegar kynnt til leiks. Reiknað er með að „Home“ takkinn svokallaði hverfi á brott, OLED-skjá og þráðlausri hleðslu svo dæmi séu tekin.

Í grein Forbes um málið segir að sé þetta satt sé Apple að hugsa nokkra leiki fram í tímann. Með því að halda í þá hönnun sem iPhone hefur verið með undanfarin ár geti Apple haldið í þá sem ekki vilji miklar breytingar ár frá ári með iPhone 7s símanum. Á sama tíma geti fyrirtækið lokkað til sín nýja viðskiptavini með því að kynna til leiks endurhannaðan iPhone-síma með iPhone 8.

Reiknað er með að iPhone 7s símarnir muni vera verðlagðir á svipaðan hátt og áður en ódýrasta útgáfan af iPhone 7 kostar hér á landi um 120 þúsund krónur. Í grein Forbes segir að gera megi ráð fyrir að iPhone 8 verði um fimmtán til 20 þúsund krónum dýrari en Iphone 7s plus útgáfan. Þess má geta að ódýrasta útgáfan af iPhone 7 plus kostar hér á landi um 140 þúsund krónur.

 

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×