Viðskipti innlent

Ráðherra hyggst bæta löggjöf um FME

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á ársfundi. Vinna við nýja löggjöf hefst fljótlega.
Á ársfundi. Vinna við nýja löggjöf hefst fljótlega. fréttablaðið/pjetur
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, boðar breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þetta kom fram í máli hans á ársfundi Fjármálaeftirlitsins í gær. Hann segir miklar breytingar hafa orðið á fjármálaumhverfinu og langt síðan lögin voru sett.

Breytingar hafa verið boðaðar á löggjöf um Seðlabankann og liggur fyrir vinna sérfræðinefndar vegna þeirrar vinnu. Bjarni segir ótímabært að segja til um hvort í boðuðum frumvörpum muni felast samþætting í verkum stofnananna eða jafnvel sameiningar. „En það er mjög stórt verkefni ef út í það yrði farið. Það þarf að eiga sér aðdraganda og við erum ekki að vinna neina slíka vinnu akkúrat núna,“ segir hann.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að endurbætt löggjöf þurfi að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að grípa inn í ef stofnunin sér að það er hætta fram undan.

„Það þarf að endurspeglast í lögunum að við tökum þátt í að stuðla að fjármálastöðugleika, við þurfum að fá lagaákvæði um að forgangsraða málum í samræmi við áhættumiðað eftirlit,“ segir Unnur. Löggjöfin þurfi að vera í takti við það vald og þá ábyrgð sem stofnuninni sé falin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×