Erlent

Pútín ver Trump: Hann er snjall og mun átta sig á nýfenginni ábyrgð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands, segir Donald Trump vera snjallan mann.
Vladimir Putin, forseti Rússlands, segir Donald Trump vera snjallan mann. Vísir/EPA
Vladimír Pútín forseti Rússlands sagði í nýlegu sjónvarpsviðtali að hann teldi verðandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump vera snjallan mann og að hann teldi að hann myndi fljótt skilja nýfengna ábyrgð sína. Reuters greinir frá.

Pútín hefur áður talað um að hann vonaðist til þess að Trump myndi beita sér fyrir bættum samskiptum ríkjanna tveggja. „Það að Trump hafi náð árangri í viðskiptum bendir til þess að hann sé snjall maður og ef hann er snjall maður þá mun hann fljótlega átta sig á nýfengni ábyrgð" sagði Pútín meðal annars í viðtalinu.

Ummæli Pútíns koma í kjölfar þess að Trump hringdi í Tsai Ing-wen forseta Tævan nú á dögunum en símtalið vakti mikla reiði Kínverja sem hafa gert tilkall til Tævan síðan árið 1949. Að sama skapi hefur Bandaríkjaforseti ekki haft beint samband við forseta Tævan síðan árið 1979.

Kínverskir fjölmiðlar hafa kennt reynsluleysi Trumps um atvikið og er Pútín þar greinilega að svara þeim ummælum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×