Erlent

Putín segist ekki hafa skaðlegar upplýsingar um Trump

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vladimir Pútin, forseti Rússlands.
Vladimir Pútin, forseti Rússlands. Vísir/AFP
Forseti Rússlands, Vladimír Pútín segir að frásagnir fjölmiðla þess efnis að rússnesk yfirvöld hafi undir höndunum skaðlegar upplýsingar um Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, séu þvættingur. BBC greinir frá.

Umræddar frásagnir byggja á á skýrslu sem skrifuð var af breskum fyrrverandi leyniþjónustumanni sem starfar nú sjálfstætt. Upplýsingarnar um Trump í skýrslunni eru sagðar vera bæði af persónulegu og fjárhagslegu tagi. Skýrslunni hefur verið lekið á netið.

Sagt er að Rússar hafi meðal annars undir höndum myndband sem sýnir Trump með hópi vændiskvenna á hóteli í Moskvu árið 2013 og eru sögusagnir um að hann hafi látið vændiskonurnar pissa á hvora aðra í rúminu fyrir framan hann. Trump hefur áður þvertekið fyrir að sannindi felist í fréttum fjölmiðla þar ytra.

Sjá einnig: Frásagnir af gylltum sturtum og kúgunum Rússa „nornaveiðar“

Í ummælum sínum um upplýsingarnar sem Rússar eru sagðir hafa um Trump spyr Pútín meðal annars hvaða ástæðu rússneska leyniþjónustan ætti að hafa fyrir því að njósna um Trump á þeim tíma sem hann var ekki byrjaður að taka þátt í stjórnmálum, líkt og árið 2013.

Pútín segir að umrædd skýrsla sé „augljóslega fölsuð“ og birt í þeim tilgangi að grafa undan lögmæti Trumps sem forseta. „Þegar Trump kom til Moskvu var hann ekki orðinn stjórnmálaleiðtogi og við höfðum ekki hugmynd um fyrirætlanir hans í stjórnmálum“ segir Pútín sem spyr um leið hvort að fólk haldi að rússneska leyniþjónustan fylgist með hverjum einasta bandaríska milljónamæringi.

Þá segist Pútín einnig efast um að Trump myndi hafa áhuga á samneyti við vændiskonur þar sem hann hafi allajafna verið umkringdur fegurstu konum heims í þeim fegurðarsamkeppnum sem hann hefur skipulagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×