Erlent

Pundið gæti veikst um 15%

Sæunn Gísladóttir skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun beita sér fyrir áframhaldandi veru í ESB.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun beita sér fyrir áframhaldandi veru í ESB. Nordicphotos/AFP
Ef Bretland yfirgefur Evrópusambandið myndi atvinnulausum fjölga um allt að átta hundruð þúsund og gengi breska pundsins gæti veikst um fimmtán prósent gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Þetta sýna niðurstöður breska fjármálaráðuneytisins, sem meðal annars The Economist segir frá.

Samkvæmt tölunum, sem birtust í gærmorgun, gæti verg landsframleiðsla dregist saman um sex prósent og vísitala neysluverðs hækkað um 2,7 prósent á fyrsta ári eftir kosningarnar.

Samkvæmt mildari spá myndi gengi pundsins falla um tólf prósent, vísitala neysluverðs hækka um 2,3 prósent og verg landsframleiðsla dragast saman um 3,6 prósent.

Hagvöxtur myndi þó ná sér á strik árið 2017 eða 2018. Kosið verður um áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu þann 23. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×