Innlent

Plöntur visna vegna þurrka í Surtsey

Surtsey Þurrkar sumarsins hafa farið illa með gróðurinn í Surtsey. mynd/erling ólafsson
Surtsey Þurrkar sumarsins hafa farið illa með gróðurinn í Surtsey. mynd/erling ólafsson
Ástand gróðurs í Surtsey er víða mjög slæmt eftir þurrka sumarsins, einkum á hraunklöppum þar sem plöntur hafa visnað. Þetta er niðurstaða rannsóknarleiðangurs líffræðinga á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) sem farinn var dagana 16.-20. júlí.

Í leiðangrinum nú var háplöntuflóra eyjarinnar tekin út, skordýrum safnað, fuglalíf kannað, gerðar mælingar á gróðri og virkni hans í föstum mælireitum, sýni tekin af jarðvegi til efnamælinga og hugað að breytingum á strönd eyjarinnar.

58 tegundir háplantna fundust og hafði tegundum fækkað um eina frá 2011, að því er fram kemur á vef NÍ.

Alls hafa fundist 70 tegundir í Surtsey frá árinu 1965 en allnokkrar þeirra hafa ekki náð varanlegri fótfestu. Flestar voru þær í eynni árið 2007 er 65 tegundir fundust. Frá þeim tíma hefur gætt fækkunar. Þurrkar sumarsins 2012 hafa sett mark sitt á gróður í Surtsey en hann leit óvenju illa út.

Af smádýrum fundust hins vegar nýjar tegundir. Fuglalíf var í svipuðu horfi og undanfarin ár, ellefu tegundir varpfugla eru nú í eynni. Talning á hreiðrum máva bendir til að varp þeirra sé á uppleið eftir nokkra lægð síðustu ár.

Stöðugt sjávarrof Surtseyjar heldur áfram og merktu leiðangurmenn verulegar breytingar á strönd. - kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×