Skoðun

PISA og lesskilningur – skipta greinarmerki máli?

Arnór Guðmundsson skrifar
Menntamálastofnun hefur sætt gagnrýni fyrir að vanda ekki til þýðinga á PISA-prófi. Hefur gagnrýnin annars vegar byggt á athugasemdum við þýðingu á spurningum í PISA 2015 og hins vegar á meintum spurningum úr eldri PISA-könnunum sem gengið hafa manna á milli á netinu. Stofnunin hefur beðist afsökunar á þeim hnökrum sem voru á þýðingum í PISA 2015 en getur trauðla elt ólar við meira en tíu ára gömul dæmi um hráar þýðingar sem gengið hafa á netinu.

Að sjálfsögðu er það réttmæt ábending að íslenska í þeim prófum sem Menntamálastofnun leggur fyrir á að vera í lagi og að því verður unnið í næstu fyrirlögn PISA sem verður 2018. Það er umhugsunarefni af hverju fjórum löggiltum skjalaþýðendum, sem sáu um þýðingarnar, sást yfir þær villur sem bent hefur verið á. Menntamálastofnun hefur því ákveðið að bæta það vinnulag sem viðhaft hefur verið við PISA-könnunina. Verður sérstök áhersla lögð á að íslenskulesa þær spurningar sem notaðar verða í næstu fyrirlögn PISA.

Meginskilaboð PISA-könnunar

Í þeirri umræðu sem nú á sér stað um niðurstöður PISA verður að gæta þess að missa ekki sjónar á þeim meginskilaboðum sem felast í niðurstöðum könnunarinnar. Þau eru að lesskilningi nemenda við lok grunnskóla hefur hrakað mikið hér á landi og er hann mun lakari en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hafa fræðimenn bent á að ef ekkert verði að gert kunni íslenskan smám saman að víkja fyrir enskum áhrifum. Þetta tel ég vera stórmál og hef leyft mér að halda því fram að í þessu samhengi sé stafsetning og greinarmerkjasetning í spurningum könnunarinnar kannski léttvæg. Við munum hins vegar hafa kommur og spurningarmerki á réttum stöðum í næstu fyrirlögn PISA.

Fyrir áhugamenn um þýðingu á texta sem notaður var í PISA árið 2000, og gengið hefur manna á milli á Facebook, vísa ég í frétt á heimasíðu Menntamálastofnunar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×