Erlent

Phil Rudd lýsti sig sekan

Samúel Karl Ólason skrifar
Phil Rudd í dómsal.
Phil Rudd í dómsal. Vísir/AP
Phil Rudd, trommari AC/DC, lýsti sig sekanfyrir dómi í Nýja Sjálandi í nótt fyrir að hafa hótað að myrða mann sem vann hjá sér. Hann lýsti sig einnig sekan fyrir að eiga matamfetamín og maríjúana. Rudd er nú laus geng tryggingu en á yfir höfði sér fangelsisvist í allt að sjö ár.

Refsing hans verður ákveðin í júní.

Á vef AP fréttaveitunnar segir að Rudd hafi viðurkennt að hafa boðið manni peninga, bíl, mótorhjól og hús fyrir að ganga frá öðrum manni. Einnig sagði Rudd við manninn að hann myndi drepa hann. Saksóknarar hættu við aðra ákæru um morðhótun, en áður höfðu þeir lagt niður ákæru vegna tilraunar til leigumorðs.

Deilur Rudd við manninn hófust í ágúst eftir að Rudd gaf út hljómplötu. Sala plötunnar gekk verr en Rudd hafði gert ráð fyrir og því sagði hann fjölda starfsmanna sinna upp. Þeirra á meðal var maðurinn sem Rudd hótaði að myrða.

Fjórum vikum eftir uppsagnirnar hringdi Rudd í annan mann og sagði honum að hann vildi láta „ganga frá“ öðrum manni. Hann bauð manninum 200 þúsund dali, mótorhjól, bíl og húsið. Degi seinna hringdi hann beint í manninn sem hann vildi láta ganga frá og sagði:

„Ég ætla að koma til þín og drepa þig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×