Bílar

Bílar

Nýjustu fréttir, fróðleikur og skemmtileg myndbönd sem tengjast bílum.

Fréttamynd

Tíu ódýrustu 400 hestöflin

Um marga kosti er að ræða fyrir bílkaupendur þegar kemur að mjög öflugum bílum í Bandaríkjunum. Ef kröfurnar eru settar við 400 hestöfl eru þeir samt margir og nokkrir þeirra ekki óviðráðanlegir fyrir venjuleg veski. Hér er listi sem bílatímaritið Automobile tók saman um ódýrustu kostina er kemur að bílum yfir 400 hestöfl. 1. Ford Mustang GT: 412 hestöfl Mustang GT er ódýrasti bíllinn sem nær þessari hestaflatölu, er á 31.545 dollara eða 4.070.000 kr. Hann er með 5,0 lítra V8 vél og er afturhjóladrifinn. Sex gíra beinskipting eða sex gíra sjálfskipting er í boði. Það fást ekki ýkja merkilegir né öflugir bílar á Íslandi fyrir 4 milljónir og eru Bandaríkjamenn öfundsverðir að þurfa ekki að leggja út meira fé fyrir svo öflugan og flottan bíl.

Bílar
Fréttamynd

Nýr Suzuki Grand Vitara

Suzuki Grand Vitara hefur lengi verið einn af eftirsóttari jeppunum í sínum stærðarflokki á Íslandi og af honum seldust 140 bílar í fyrra. Um helgina verður hann frumsýndur í nýrri gerð hjá Suzuki bílum í Skeifunni.

Bílar
Fréttamynd

Tesla mælist 386 hestöfl á Dyno-mæli

Áreiðanlegasta aðferðin við að finna út raunverulegt afl bíla er ekki að lesa sölubæklinginn heldur skella bílnum á Dyno-mæli sem mælir nákvæmlega það afl sem hjólin skila á rúllurnar sem hann stendur á. Vitað var að rafmagnsbíllinn Tesla Model S væri ansi öflugur bíll, en það var staðfest með þessari aðferð Mældist mesta afl hans 386 hestöfl við um 90 km hraða. Það sem vekur enn meiri athygli að rétt eftir kyrrstöðu skilar rafmótorarnir 300 hestöflum til hjólanna. Það þarf því ekki að bíða lengi eftir aflinu. Við 210 km hraða eru hestöflin komin niður í 220. Tesla fyrirtækið fullyrðir í sölulista að Model S sé 416 hestöfl, en mælingin sýnir að það skortir 30 hestöfl á. Rétt skal vera rétt. Á myndbandinu sést Model S við Dyno mælingu.

Bílar
Fréttamynd

Volkswagen og BMW spáð mestum vexti

Könnun KMPG sem gerð var meðal hátt settra stjórnenda bílaframleiðslufyrirtækjanna bendir til að Volkswagen og BMW sé líklegust til að auka hlutdeild sína á bílamarkaðnum í heiminum næstu 5 árin. Þetta er fjórtánda árið í röð sem KPMG spyr um 200 stjórnendur í bílafyrirtækjunum að því hvaða fyrirtæki eru líklega til að auka eða tapa hlutdeild á næstu 5 árum. Efst á listanum trónir Volkswagen, en 81% þeirra hafa trú á vexti þess, 3% að hún muni minnka og 16% að hún muni standi í stað. Í öðru sæti er BMW með 70% trú á vexti og 5% trú á minnkun. Er þetta fyrsta skiptið sem BMW nær svo hátt á listanum. Athygli vekur að neðstu fyrirtækin á listanum er japönsku framleiðendurnir Suzuki, Mazda, Mitsubishi og Subaru. Allt aðra sögu er að segja af Toyota, en það er í fjórða sæti.

Bílar
Fréttamynd

Skoda nálgast milljón bíla á ári

Tékkneski bílaframleiðandinn Skoda seldi 939.200 bíla á síðasta ári og búast má við að takmarkinu um milljón bíla sölu náist á þessu ári. Skoda jók söluna um 6,8% í fyrra og ef sami vöxtur kemur til á þessu ári nær Skoda markmiði sínu. Ekki ætti að saka að bráðlega mun Skoda kynna nýja kynslóð af vinsælasta bíl sínum, hérlendis sem annarsstaðar, Skoda Octavia. Octavia seldist í 410.000 eintökum í fyrra. Næstsöluhæsta bílgerð Skoda var Fabia með 240.000 eintök, þá Superb með 109.000, Yeti 87.000, Roomster 38.000, Rapid 25.000 og Citigo með 30.000 eintök en sá bíll kom nýr á seinni hluta ársins. Til marks um góðan árangur Skoda á síðasta ári þá var 3% vöxtur í sölu Skoda bíla í vesturhluta Evrópu þó svo að um verulega minnkun heildarsölu þar hafi verið að ræða. Sterkast eini markaður Skoda er þó í Kína, en þar seldi Skoda 236.000 bíla og jókst salan um 7,1%. Sala Skoda bíla í Bretlandi jókst um 17,6% og metsala var einnig í Austurríku, Sviss og Danmörku. Á Íslandi seldust 689 Skoda bílar í fyrra sem var 8,7% af bílasölumarkaðinum og líklega hæsta markaðshlutdeildin utan heimalandsins Tékklandi. Salan jókst um 48% frá 2011.

Bílar
Fréttamynd

Aston Martin 100 ára

Breski lúxusbílaframleiðandinn Aston Martin er 100 ára í ár og heldur uppá afmælið meðal annars með afmælisútgáfum af flestum sínum bílgerðum. Framleiddir verða 100 bílar af hverri gerð Vantage, DB9, Rapide og Vanquish í sérstakri afmælisútgáfu. Bílarnir verða merktir í númararöð og í hverjum bíl verður skjöldur sem tiltekur raðnúmer hans. Bílarnir fá sérstakt lakk og að innan verða þeir með svipaða leðurinnréttingu og er í Aston Martin One-77 Volante, með stöguðu leðri og silfurtvinna. Að öðru leiti er bílarnir eins og hefðbundnu bílgerðirnar. Bílunum fylgja allrahanda smágjafir, svo sem tvö Bang & Olufssen heyrnatól, tveir bíllyklar úr gleri, ermahnappar, pennar úr silfri og fleira glingur sem allt er merkt Aston Martin. Vafalaust höfða þessir bílar til margs efnameira fólks og bílasafnara en fyrir þá þarf að greiða meira en fyrir venjulega Aston Martin bíla. Lionel Martin og Robert Bamfors stofnuðu Bamford og Martin árið 1913, en nafnið breyttist í Aston Martin ári seinna eftir sigur bíls þeirra í Aston Clinton Hillclimb klifurkeppninni.

Bílar
Fréttamynd

Bílaframleiðendur flýja Íran

Hver bílaframleiðandinn á fætur öðrum flýr nú Íran og ástæðan sú að þeir vilja ekki tengja nafn sitt við ríki sem ógnar heiminum með kjarnorkutilraunum sínum sem enginn veit í hvaða tilgangi er. Síðustu bílaframleiðendurnir til að draga sölu sín frá Íran eru lúxusbílaframleiðendurnir Lamborghini og Maserati. Áður hafa Daimler-Benz, Toyota, Porsche, Hyundai, Fiat og PSA Peugeot-Citroen dregið sig út úr landinu og selja ekki bíla sína þar. Það þrengir því að bílakostum þeim er íbúar Íran geta valið um og aldrei að vita hvort allir aðrir framleiðendur fygli í kjölfarið.

Bílar
Fréttamynd

Renault og Fiat segja upp starfsfólki

Renault áformar að segja upp 7.500 starfsmönnum í bílaverksmiðjum í heimalandinu fyrir árið 2016. Sú aðgerð á að duga til að koma fyrirtækinu á núllpunkt í rekstri, en mikið tap hefur verið á rekstri Renault undanfarið. Renault er nauðugur einn kostur en við blasir að árið í ár verði sjötta árið í röð þar sem bílasala í Evrópu minnkar. Gangi þessi niðurskurður eftir nemur hann 14% af starfsfólki Renault í Frakklandi í dag en 128.000 vinna fyrir Renault um allan heim. Ekki stendur til að loka neinni af verksmiðjum Renault. Fiat hefur einnig biðlað til itölsku ríkisstjórnarinnar um heimild til að skera umtalsvert niður í bílaverksmiðjunni í Melfi á næstu tveimurn árum svo undirbúa megi hana fyrir smíði margra nýrra bíla sem Fiat mun kynna til ársins 2016. Fiat samstæðan áætlar að kynna 19 nýja bíla til ársins 2016, þar af 9 Alfa Romeo og 6 Maserati bíla. Áætlanir Fiat ganga út það af framleiða 2 milljónir bíla í Evrópu árið 2016, en þeir voru aðeins 1,25 milljón í fyrra. Fiat hefur ekki selt eins fá bíla og það gerði í fyrra frá árinu 1979.

Bílar
Fréttamynd

Heimsókn í sérstæða bílaverksmiðju

Ein sérstakasta bílaverksmiðja heims var heimsótt um daginn af visir.is. Þar eru dýrasti bíll Volkswagen handsmíðaður, þ.e. forstjórabíllinn Volkswagen Pheaton fyrir augunum á mýmörgum gestum sem þangað koma. Verksmiðjan er öll byggð úr stáli og gleri og er því gegnsæ. Þangað koma gjarnan líka kaupendur bílanna og taka þátt í smíði eigin bíls í einn dag og svo aftur þegar bíllinn er tilbúinn til afhendingar. Í meðfylgjandi myndskeiði er einnig fjallað um minnsta bíl Volkswagen, up! Sjón er sögu ríkari.

Bílar
Fréttamynd

Go-kart braut í Guantanamo

Er það nema von að hernaðarbrölt Bandaríkjamanna kosti skildinginn þegar byggð er Go-kartbraut fyrir starfsmenn fangelsins í Guantanamo á Kúbu. Þannig er það nú samt. Brautin kostaði 52 milljónir króna enda miklu til fórnað að fangelsisstarfsmenn geta gert eitthvað skemmtilegt milli þess sem þeir gæta pólitískra fanga. Frá árinu 2001 hafa framkvæmdir við Guantanamo herstöðina og fangelsið kostað bandarísku þjóðina tvo milljarða bandaríkjadala, eða 260 milljarða króna. Í því ljósi er kostnaðurinn við Go-kart brautina dropi í hafi. Kostnaðurinn við Go-kart brautina er ekki eini kostnaðarliðurinn sem fengið hefur grínaktuga umfjöllun, en 32 milljónum króna var varið í að byggja blakvöll, 400 milljónum í byggingu leikvölls og 900 milljónum í endurnýjun á Starbucks kaffihúsi, svo eitthvað sé nefnt.

Bílar
Fréttamynd

Forstjóri Nissan segir tapaða hlutdeild bara hiksta

Honum er sjaldan orðavant forstjóra Nissan, Carlos Ghosn þó svo að Nissan hafi tapað markaðshlutdeild í Bandaríkjunum og að Nissan stefni ótrautt að 10% markaðshlutdeild þar árið 2016. Hún féll úr 8,2% 2011 í 7,9% í fyrra. Það er reyndar fyrsta árið frá 2006 sem fyrirtækið tapar hlutdeild þar vestra. Nissan og lúxusmerki þeirra Infinity seldi 1,14 milljón bíla í Bandaríkjunum í fyrra. "Aðeins eitt ár með tapaðri hlutdeild er eins og og nettur hiksti og ég hefði fyrst áhyggjur ef það gerðist tvö ár í röð“, sagði Ghosn. Ghosn nefndi tveir helstar ástæður fyrir lækkaðri markaðshlutdeild. Nokkrir af bílum Nissan sem til sölu voru hefðu verið að enda sitt skeið og nýjar kynslóðir þeirra litu brátt dagsins ljós og að japanskir keppinautar þeirra hefðu verið lengur að jafna sig en Nissan eftir jarðskjálftann stóra 2011 og því hefðu þeir notið meiri vaxtar 2012.

Bílar
Fréttamynd

Topplaus og dónalega kraftmikill Bentley

Enn halda þeir áfram að birtast nýju og flottu bílarnir á bílasýningunni í Detroit sem stendur yfir. Einn þeirra eigulegastur hlýtur að teljast þessi blæjuútgáfa af Bentley GT Speed. Í húddinum leynist 12 strokka og 6 lítra sleggja sem sér hjólunum fyrir 616 hestöflum að fíflast í malbikinu. Með þeim getur hann reyndar ferðast á því á 325 km ferð. Þá er líklega betra að vera búinn að loka blæjunni eða að minnsta kosti taka af sér hattinn. Þessi annars nokkuð þungi sleði er ekki nema 4,1 sekúndu í hundrað og 9,7 sek. Í 160 km hraða. Tog vélarinnar nemur 800 Newtonmetrum. Til að hressa örlítið uppá útlit bílsins er hann á 21 tommu felgum. Blæja bílsins hefur verið prófuð í allt að 30 stiga frosti og 50 stiga hita og þolið það bæði jafnvel, sem og monsúnrigningar og fyrir vikið á farþegum allsstaðar að líða eins.... það er vel.

Bílar
Fréttamynd

Ók 1.500 km í stað 150 vegna GPS-villu

Sabine Moreau, 67 ára gömul kona frá Belgíu, ætlaði að sækja vinkonu sína um 150 km leið, en endaði í Zagreb í Króatíu sem er um 1.500 km frá heimili hennar. Þetta tókst henni aðallega af tvennum sökum, bilun í leiðsögn GPS-tækisins sem hún studdist við og ótrúlega lélegri athyglisgáfu hennar. Heimili konunnar er í Hinault Erquelinnes í Belgíu og vinkonan beið á lestarstöð í Brussel, sem er um tveggja tíma akstur. Þess í stað ók Sabine í tvo sólarhringa og lagði á ferð sinni að baki 1.500 kílómetra, enda var hún komin á hinn endann í álfunni að leiðarenda. Hún verður að teljast efnileg til þátttöku í Le Mans þolaksturskeppninni í ár með slíka seiglu í handraðanum, enda er í keppninni trauðla hægt að ruglast af leið þar sem hún er lokaður hringur. Á leið sinni þurfti Sabine tvisvar að fylla á tankinn og hún dottaði nokkrum sinnum í vegköntum. Að sögn hennar sjálfrar var hún nokkuð annars hugar, en fyrr má nú vera! "Ég sá allskonar umferðarskilti í Þýskalandi, Austurríki og að lokum í Zagreb í Króatíu. Þá áttaði ég mig á því að ég var ekki í Belgíu lengur!“ Fyrir suma tekur það vonandi styttri tíma.

Bílar
Fréttamynd

Benz kynnir CLA í Berlín í dag

Mercedes-Benz mun kynna til leiks glænýjan bíl, CLA-Class á alþjóðlegri tískuviku Mercedes-Benz sem hefst í Berlín í dag 15. janúar. CLA er fjögurra dyra sportlegur bíll hannaður sem coupé og verður í boði með 4MATIC fjórhjóladrifi ásamt miklum búnaði. Hönnunin er sportleg og sækir hann nokkuð svip til CLS-Class og er ekki leiðum að líkjast. Kraftmikið grillið að framan lítur út fyrir að vera alsett demöntum og straumlínulagaðar hliðar bílsins og sportlegur afturhluti hans eru talsvert fyrir augað. Mikið er lagt upp úr vönduðu efnisvali í innréttingunni, sem búast má við af Benz. Bíllinn verður einnig fáanlegur með panomaric glerþaki. CLA er með lægstu loftmótstöðu sem um getur í bíl eða 0.22 Cd. CLA-Class er framleiddur með 1,6 og 2,0 lítra bensínvélum sem skila 122 og 156 hestöflum. Kraftmesta útfærslan CLA 250 er með 211 hestafla vél. Tvenns konar díselvélar bjóðast. Sú minni mun skila 136 hestöflum og togið er 300 NM og sú stærri 170 hestöflum og 350 NM í togi en á sama tíma er CO2 losunin aðeins 109 g/km. Allar vélarnar í nýjum CLA-Class verða með ECO start/stop búnaði. Hægt verður að fá bílinn með nýrri sex gíra beinskiptingu eða 7G-DCT sjálfskiptingu eins og er í nýjum A-Class. Nýr CLA-Class er með árekstrarvara en búnaðurinn greinir þegar fjarlægð frá bíl eða kyrrstæðri mótstöðu er of lítil og lætur ökumann vita með mynd- eða hljóðmerki. CLA er væntanlegur á markað í apríl hjá Öskju og hingað til lands fyrri hluta sumars. CLA er ætlað stórt hlutverk á Bandaríkjamarkaði, en hann er minnst bíll Benz sem þarf er seldur, þar sem hvorki A-Class né B-Class eru í boði.

Bílar
Fréttamynd

Kraftatröllið Audi RS7

Ekki skarta margir fjöldaframleiddir fólksbílar 560 hestöflum, hröðun í hundraðið á 3,9 sekúndum og 305 kílómetra hámarkshraða. Það gerir þó Audi RS7 sem svipt var af hulunni á bílasýningunni í Detroit í gær. Vélin í bílnum er 4,0 lítra V8, en með tveimur túrbínum sem skýrir ógnaraflið. Þrátt fyrir allt þetta afl eyðir bíllinn aðeins 9,8 lítrum. Það skýrist af því að vélin slekkur á fjórum af átta strokkum ef ekki er stigið gáskalega á bensíngjöfina. Ef það er hinsvegar gert koma hinir strokkarnir inn á örfáum hundraðshlutum úr sekúndu. Við vélina er boltuð átta gíra Tiptronic sjálfskipting sem sendir aflið til allra hjólanna, eins og títt er með Audi bíla. Bremsurnar á bílnum eru að sjálfsögðu jafn ógnarlegar og vélin og bremsudiskarnir heilir 39 cm í þvermál. Bíllinn er að mestu byggður á hástyrktarstáli og áli. Fá má hann með loftpúðafjöðrun og er með henni er hægt að lækka bílinn um 20 mm. Þó bíllinn sé með "coupe“-lagi er hann samt með 535 lítra skotti.

Bílar
Fréttamynd

Hulunni svipt af BMW 4

Mikið er um kynningar á nýjum bílum á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Detroit. Ein þeirra er nýr bíll frá BMW sem nú notast við tölustaf sem BMW hefur ekki notað áður, það er 4. Þessi "coupe“ bíll byggir alfarið á BMW 3-línunni, en er tveggja hurða og einum 5 cm lengri en þristurinn. Hann líkist óneitanlega 6-línu bíl BMW, en sá bíll byggir á 7-línunni, en er eins og nýi fjarkinn með aðeins tvær hurðir. Þeim er barið hafa þennan nýja sportbíl BMW augum ber saman um að þar fer fagur bíll sem ekki ber þess merki að skornar hafi verið tvær hurðir af venjulegum BMW 3 bara til að bjóða "coupe“-bíl. BMW mun bjóða nýja fjarkann í M-útfærslu sem búast má við að verði mjög öflugur bíll. Einnig verður hann í boði sem blæjubíll.

Bílar
Fréttamynd

Tíu lífseigustu goðsagnirnar um bíla

Margar eru goðsagnirnar um bíla sem eiga við lítil rök að styðjast. Bílavefurinn Jalopnik fékk lesendur til að meta hverjar væru þær lífseigustu og almennustu. Þeim er hér raðað í öfugri röð. 10. T-Ford kom aðeins í svörtu Henry Ford á að hafa sagt að fólk gæti valið sér hvaða lit sem væri á T-Ford, svo lengi sem hann væri svartur. Bíllinn var hinsvegar boðinn í mörgum litum á seinni framleiðsluárum bílsins, þ.e. blár, rauður, grænn, grár, enn litirnir voru reyndar sumir svo dökkir að erfitt að greina þá frá svörtu. Af 15 milljón eintökum sem seldust af T-Ford, voru reyndar 12 milljónir svartir.

Bílar
Fréttamynd

Schreyer tekur einnig yfir hönnun Hyundai bíla

Kia gerði aðalhönnuð sinn, Þjóðverjann Peter Schreyer, að einum af þremur forstjórum fyrirtækisins í byrjun ársins. Vegtyllur og hlutverk hans hafa þó enn aukist. Hann hefur einnig verið settur yfir hönnun allra Hyundai bíla. Hyundai fyrirtækið er fimmta stærsta bílafyrirtæki heims og framleiðir bíla undir merkjum Hyundai og Kia. Það seldi 7,12 milljón bíla í fyrra og áætlar að selja 7,41 milljón bíla í ár. Hönnunardeildir fyrirtækjanna tveggja hafa hingað til verið aðskildar með öllu. Vöxtur Kia hefur verið meiri en hjá Hyundai á síðustu árum og á verðlaunuð hönnun Schreyer á Kia bílum stóran þátt í því. Í því ljósi kemur hlutverk Schreyer nú hjá Hyundai ekki á óvart og á hann nú að sjá til þess að Hyundai bílar verði álíka fagrir og Kia bílar. Hyundai segist hafa það markmið að slá við Volkswagen og BMW er kemur að hönnun bíla sinna. Hvort það tekst með Schreyer við stjórnvölinn kemur svo í ljós.

Bílar
Fréttamynd

Þriggja sætaraða Volkswagen

Síðasta útspil Volkswagen í áætlunum sínum um að verða stærsti bílaframleiðandi heims er þessi þriggja sætaraða bíll sem stefnt verður á Bandaríkjamarkað. Hann var kynntur í dag á bílasýningunni í Detroit. Stærsti jeppi Volkswagen er nú Touareg og í hann kemst ekki þriðja sætaröðin og úr því skal bætt þar sem margir keppinautar Volkswagen bjóða slíka bíla sem seljast vel vestanhafs. Bílar eins og Ford Explorer og Honda Pilot, sem skarta þriðju sætaröðinni hafa selst eins og heitar lummur undanfarið í Bandaríkjunum. Bíllinn er hinn laglegasti í útliti, en er ennþá á teikniborðinu. Hann verður líklega smíðaður í verksmiðju Volkswagen í Tennessee. Touareg er frekar dýr bíll en búast má við því að þessi nýi bíll verði af ódýrari gerðinni og keppi við samskonar bíla í verði.

Bílar
Fréttamynd

Lækkar bensínið í ár?

Spár benda til þess að verð á bensíni muni lækka á þessu ári í Bandaríkjunum og að lækkunin gæti numið um 5 prósentustigum. Nægt framboð er á olíu og eftirspurn mun vaxa lítið. Ef þessar spár reynast réttar verður árið í ár fyrsta árið í langan tíma þar sem verð á eldsneyti lækkar milli ára. Hækkun eða lækkun eldsneytisverð vestanhafs endurspeglast gjarna á öðrum mörkuðum. Í Bandaríkjunum hefur verð á eldsneyti fallið nokkuð á undanförnum mánuðum og því mun áætluð lækkun í ár bætast við þá lækkun og þykja það góðar fréttir. Þar í landi er reyndar verð á bensíni um það bil helmingi lægra en hér á landi, en þykir samt hátt. Helsta ástæða þess að lækkandi eldsneytisverð hefur ekki skilað sér við bensíndælurnar hér er gengisþróun krónunnar, sem fallið hefur nokkuð undanfarið. Snemma á síðasta ári lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um tímabundna lækkun á álögum ríkisins á eldsneyti og ef þær hefðu verið samþykktar hefði lítraverð á bensíni lækkað um 50 krónur. Ekki hefur það enn gengið eftir, en hvað verður eftir kosningar í vor á tíminn eftir að leiða í ljós.

Bílar
Fréttamynd

Einn sá algeggjaðasti

Fáir hafa heyrt nefndan bandaríska bílaframleiðandann Lucra en fyrirtækið framleiðir einar þær alöflugustu spyrnukerrur sem í boði eru. Einn þeirra er LC470 Roadster. Hann vegur ekki nema 900 kíló en er yfir 600 hestöfl. Allt það afl skilar honum í hundraðið á 2,5 sekúndum og hann er ekki nema 9 sekúndur að fara kvartmíluna. Yfirbygging bílsins er eingöngu úr koltrefjum. Lucra LC470 kostar 85.000 dollara, eða um 11 milljónir króna. Ef kaupandi bílsins getur hinsvegar séð af 118.000 dollurum fer hestaflafjöldinn uppí 680 og innréttingin verður betri. Annar valmöguleiki er að kaupa Bugatti Veyron 16.4 Super Sport á 2,4 milljónir dollara, en sá bíll er nákvæmlega jafn lengi að komast á hundrað kílómetra ferð, en er ríflega tuttugu sinnum dýrari. Ef skynsemin ræður för er Lucra því vænlegri kostur til að fanga sem mesta hröðun. Fræðast má meira um Lucra bíla í meðfylgjandi myndskeiði.

Bílar
Fréttamynd

Gerbreytt Corvetta

Á morgun verður ný kynslóð Chevrolet Corvette kynnt á bílasýningunni í Detroit. Eins og gjarnan áður fyrir frumsýningar á bílum hefur einhverjum tekist að ná myndum af honum áður. Þær myndir, vilja bílablaðamenn meina, sýna bíl sem er besta hönnun á Corvette í heil 50 ár. Að minnsta kosti er bíllinn mjög svo breyttur frá fyrri gerð. Í nýjasta tölublað bílatímaritsins Automobile er gengið svo langt að birta mynd af afturhluta bílsins sem einhver óprúttinn hefur náð. Chevrolet segir að bíllinn sé mjög mikið breyttur og að það eigi ekki síður við að innan en utan. Ekki veitti reyndar af því, þar sem margir fullyrða að fá hafi mátt vandaðri innréttingar í bílum sem kosta undir tuttugu þúsund dollurum, en Corvette kostar fimm sinnum meira.

Bílar
Fréttamynd

Aukning hjá Toyota í Evrópu

Þrátt fyrir dræma sölu bíla í Evrópu í fyrra jók Toyota og Lexus söluna frá 2011 um 2 prósent og seldi alls 837.969 bíla. Við það jókst markaðshlutdeild Toyota í álfunni úr 4,2% í 4,5%. Toyota þakkar þessum árangri nýjum Yaris og ýmsum gerðum tvinnbíla (Hybrid) sem seldust mjög vel. Toyota telur að fyrirtækið muni selja enn fleiri bíla í Evrópu í ár þrátt fyrir ekkert alltof góðar spár um bílasölu í álfunni. Nýr Auris og sjö sæta Verso munu hjálpa þar mikið til, sem og fjórða kynslóð RAV 4 jepplingsins. Sala Toyota í Bretlandi jókst um 12% en stóð í stað í Frakklandi. Hjá nágrönnum okkar Dönum jókst salan um 8%, en um heil 20% í Eystrasaltslöndunum. Salan í Rússlandi jókst um 27% og 13% í Úkraínu. Ef sala Lexus er tekin sér jókst hún um 4,5% í Evrópu. Nýir GS og ES bílar spiluðu þar stóra rullu auk mikillar eftirspurnar eftir CT 200h og RX jeppunum, sem á sumum mörkuðum bjóðast aðeins sem tvinnbílar. Sala Lexus í Rússlandi óx um 14% og í Hollandi um heil 43%, þökk sé mikilli sölu á CT 200h bílnum. Stutt er í að Lexus kynni nýja kynslóð IS bílsins, sem mun þá einnig fást sem tvinnbíll. Í Evrópu eru 13% seldra bíla Toyota og Lexus tvinnbílar, en sama hlutfall í Hollandi er 45%. Ef Lexus bílar eru teknir sér, eru 90% seldra bíla tvinnbílar.

Bílar
Fréttamynd

Tveir látnir í París-Dakar

Nú stendur yfir þolaksturskeppnin sem kennd er við París-Dakar. Keppnin fer hinsvegar fram í Perú, Síle og Argentínu og fer árlega fram í byrjun árs. Keppni þessi er afar hættuleg og hefur kostað marga lífið, keppendur, aðstoðarmenn sem og áhorfendur. Þetta ár ætlar ekki að vera nein undantekning frá því. Í fyrradag létust tveir þegar aðstoðarbíll lenti í árekstri við leigubíl og annar leigubíll valt mörgum sinnum við það að reyna að forðast áreksturinn. Sjö slösuðust auk dauðsfallanna og eru þeir allir á sjúkrahúsi, mismikið slasaðir. Keppnin heldur áfram þrátt fyrir þessi áföll.

Bílar
Fréttamynd

Fjórða kynslóð Honda CR-V

Nýr Honda CR-V verður kynntur um helgina hjá Bernhard í Vatnagörðum og hjá umboðsaðilum. Þetta er fjórða kynslóð CR-V, sem hefur jafnframt verið einn af söluhæstu fjórhjóladrifsbílum landsins í mörg ár. Nýi bíllinn var hannaður sérstaklega með Evrópumarkað í huga og ýmsar athyglisverðar breytingar hafa verið gerðar. Það hefur líklega tekist með miklum ágætum því nýr CR-V hefur verið hlaðinn verðlaunum og var meðal annars tilnefndur á dögunum sem bíll ársins í Evrópu. Aðrir titlar sem CR- V hefur þegar hampað eru Besti fjölskyldubíll ársins að mati Kelley Blue Book, hann er á topp-tíu lista sama aðila yfir bíla með hæsta endursöluvirðið og hlaut fullt hús stiga hjá National Highway Transportation Safety Administration fyrir öryggi. Honda CR-V er mest seldi bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum og var valinn besti fjórhjóladrifni bíll ársins 2012 af tímaritinu Total 4x4 Magazine. Í umsögn blaðsins var Honda CR-V hælt sérstaklega fyrir að vera betur hljóðeinangraður en aðrir bílar í sambærilegum flokki og einnig fyrir sérstaklega gott notkunarrými. Umhverfisvænir þættir Honda CR-V hafa fengið enn meira vægi. Útblástur koltvísýrings hefur verið minnkaður og eldsneytisnýting bætt. Nýr CR-V er rúmbetri en fyrirrennari hans. Ný hönnun auðveldar umgengni, hægt er að fella saman aftursæti á einfaldan hátt og farangursrými er 148 lítrum rúmbetra en í eldri gerð. Aukið hefur verið við hljóðeinangrun í gólfi, í afturhurðum og í geymsluhólfum undir sætum og með því tekist að lækka vélar- og veghljóð um þrjú desibil. Bogadregnir hliðarspeglar auka mjög sjónsvið ökumannsins og LED-dagljós eru nú bæði að framan og aftan sem eykur þægindi og öryggi um leið. Frá árinu 1995 hafa meira en fimm milljón CR-V bíla verði seldir um allan heim. Þess má geta að 97% þeirra CR-V bíla sem seldir hafa verið frá komu hans fyrst, árið 1997, eru ennþá í notkun hér á landi. Honda CR-V er frumsýndur hjá Bernhard í Vatnagörðum 24 um helgina. Opið er laugardag á milli kl. 10:00 og 16:00 og sunnudag á milli kl. 13:00 og 16:00. Bíllinn er einnig frumsýndur hjá umboðsmönnum um allt land.

Bílar
Fréttamynd

Jeep aldrei selst betur

Allar bílgerðir Chrysler hafa átt velgengi að fagna frá því Chrysler var bjargað frá gjaldþroti árið 2009. Vöxtur í sölu fyrirtækisins nam 21% á liðnu ári, eitthvað sem fáir aðrir bílaframleiðendur léku eftir. Eitt af undirmerkjum Chrysler, Jeep, gekk fádæma vel og seldi fleiri bíla en nokkurt annað ár, eða 701.626 bíla. Fyrra metið var frá árinu 1999, 675.494 bílar. Mest seldi bíll Jeep í fyrra var Jeep Grand Cherokee, sem talsvert er til af hér á landi af ýmsum árgerðum þó. Hann seldist í 223.196 eintökum og í öðru sæti var Jeep Wrangler með 194.142 eintök seld. Sala Jeep í Kína óx um 107% frá árinu 2011. Búist er við áframhaldandi velgengni Jeep á þessu ári og verða kynntar nýjar bílgerðir sem aukið geta söluna enn.

Bílar
Fréttamynd

Sjöunda kynslóð Golf

Það eru ekki margir bílarnir sem selst hafa í 35 milljónum eintaka, en það á þó við um Volkswagen Golf. Hann kom fyrst á markað árið 1974 og á því tæplega 40 ára sögu. Á morgun má berja sjöundu kynslóð Golf augum á frumsýningu bílsins hjá Heklu. Fyrsta kynslóð Golf var í framleiðslu frá 1974 til 1983, þegar önnur kynslóðin sá dagsins ljós, aðeins lengri, breiðari, jafnt að utan sem innan og með lengra hjólhaf. Til gamans má geta þess að þessi fyrsta kynslóð Golf var framleidd áfram lítið breytt í Suður-Afríku allt fram til ársins 2009. Næstu kynslóðir Golf tóku áfram breytingum, þriðja kynslóðin kom fram 1991 og þá með túrbódísilvél með beinni innsprautun eldsneytis, TDI, og einnig með nýrri V-6 vél, 2,8 lítra VR6. Með þriðju kynslóðinni fóru línurnar í útlitinu að mýkjast og þessi gerð Golf var valinn "Bíll ársins 1992 í Evrópu“. Með fjórðu kynslóðinni sem kom fram á sjónarsviðið 1997 varð Golf enn rennilegri, og fimmta kynslóðin sem var frumsýnd 2003 var mjög svipuð í útliti. GTI-gerðin kom með 200 hestafla útgáfu af tveggja lítra TFSI-vélinni. Sjötta kynslóðin sem kom á markað 2008 var að mestu byggð á sama grunni og sú næsta á undan, en með töluvert breyttu útliti, enn straumlínulagaðri, sem hjálpaði til við að draga úr eldsneytiseyðslu og einnig hljóðlátari. Meira var lagt upp úr innréttingu og notendavænleika. Sjöunda kynslóð Golf er að sögn hönnuða VW betri en nokkru sinni fyrr. Bíllinn er aflmeiri og sparneytnari en áður, hraðskreiðari, öruggari og léttari. Nýi Golfinn er 100 kílóum léttari en fyrirrennarinn. Hann er líka verulega sparneytnari, því hann eyðir allt að 23% minna eldsneyti, sem auðvitað fer eftir vélargerð. Sjöunda kynslóð Golf er einnig væntanleg með BlueMotion-tækni og í þeirri útgáfu verður eyðslan aðeins 3,2 lítrar á hundraðið og sendir bíllinn aðeins 85 grömm af CO2 út í andrúmsloftið á hvern ekinn kílómetra. Fótarými í aftursæti hefur verið aukið og farangursrými er 30 lítrum stærra. Hvað öryggið varðar þá er í bílnum hemlakerfi með árekstarvörn, skriðstillir sem aðlagar sig að akstursaðstæðum og heldur jafnri fjarlægð frá næsta bíl og eykur eða minnkar hraðann í samræmi við flæði umferðarinnar. Hann er einnig með skynjara að framan fyrir neyðarhemlun, "akreinaaðstoð“ og "þreytuskynjun“, sem fylgist með aksturslagi ökumanns og gefur viðvörunarhljóð ef vart verður við ónákvæm viðbrögð vegna þreytu í akstri. Volkswagen Golf verður frumsýndur hjá Heklu á laugardaginn milli kl. 12 og 16, sem og hjá umboðsmönnum um landið.

Bílar
Fréttamynd

Sportbíll ársins hjá Auto Bild

Á hverju ári velja lesendur bílatímaritsins Auto Bild bíl ársins í hverjum flokki. Í flokki fjöldaframleiddra sportbíla fyrir árið 2012 völdu þeir Porsche Panamera GTS . Það merkilegasta við kosninguna er að um er að ræða fjögurra sæta fjölskyldubíl, eða forstjórabíl, sem telst óvenjulegt í sportbílaflokki. Það voru 72.500 lesendur sem nýttu rétt sinn til að kjósa og var þetta í ellefta sinn sem lesendaverðlaun Auto Bild Sportscars eru veitt. Porsche Panamera GTS er semsagt fernra dyra sportbíll. Í tungutaki Porsche stendur GTS fyrir Gran Turismo Sport og þessi merking hefur staðið fyrir ofuraflmiklum Porsche bílum allt frá hinum goðsagnakennda 904 Carrera GTS árið 1963. Panamera GTS er með aflmikilli 4,8 lítra, V8 vél sem er án forþjöppu en skilar 430 hestöflum. Hámarkstogið er 520 Nm. Veghæð bílsins er 10 mm lægri en hefðbundinn Panamera og sérhannaður sportundirvagninn er með stillanlegri loftpúðafjöðrun og Porsche Active Suspension Management (PASM). Þessi búnaðurinn gerir hann að hæfum keppnisbíl á keppnisbrautum án þess að nokkru þurfi að fórna í þægindum í daglegri notkun innan og utan borga og bæja.

Bílar
Fréttamynd

Mazda6 frumsýndur

Nýr Mazda6 verður kynntur á laugardaginn, kl. 12-16 hjá Brimborg í Reykjavík og hjá Brimborg á Akureyri. Fjölmargar nýjungar í spartækni og öryggi eru kynntar með nýjum Mazda6. Má þar nefna snjallhemlunarkerfi, blindspunktsaðvörunarkerfi og nýja og þýða sjálfskiptingu. Mazda notar um 20% meira af hástyrktarstáli í nýjan Mazda6 en í forvera hans og þrátt fyrir að vera stærri en fyrirrennarinn þá er nýi bíllinn léttari og öruggari. Nýr sjálfskiptur Mazda6 með nýjustu SkyActiv bensínvélinni er ríflega 20% sparneytnari en fyrri kynslóð. Það teljast góðar fréttir fyrir Íslendinga að bíllinn er hærri á vegi en fyrri Mazda6 þrátt fyrir að þyngdarpunkturinn hafa færst neðar. Bíllinn hefur hlotið góða dóma og erlendir bílablaðamenn hafa lofað aksturseiginleika og fádæma sparneytni nýja bílsins. Mazda6 er einnig í boði með nýjustu SkyActiv dísilvélinni frá Mazda.

Bílar
Fréttamynd

Finnur auð bílastæði

Einn notadrýgsti búnaður sem hugsast getur í bíl er vafalaust upplýsingar um hvar má finna laus bílastæði í fjölmennum borgum. Líklega er ekki langt að bíða slíks búnaðar í nýjum bílum því fyrirtækið Inrix hefur þegar þróað hann fyrir 18.000 bílastæði í Bandaríkjunum og 42.000 í 36 Evrópulöndum. Öll eru þessi stæði í bílastæðahúsum. Ekki er nóg með að búnaðurinn láti vita af hvar auð bílastæði er að finna heldur fylgja með upplýsingar um hve mörg þau eru, hvað það kostar að leggja í þau og hver opnunartími húsanna eru. Lausnin byggir á WiFi tengingu bílsins við gagnabanka Inrix sem fær rauntímaupplýsingar frá bílastæðahúsunum. Það fylgir ekki sögunni hvort einhver bílaframleiðandi hafi keypt þennan búnað nú þegar en vonandi verður það sem fyrst.

Bílar