Skoðun

Óttaþjóðfélagið

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
Ég var orðin einn af þessum dæmigerðu Íslendingum sem margir hverjir fá ekki tækifæri til að hugsa um mikið annað en hvernig þeir eigi að ná endum saman og eiga fyrir útgjöldunum um næstu mánaðamót. Þegar harðnaði á dalnum magnaðist þessi hugsun eins og hjá flestu heiðarlegu fólki og yfirtók allt annað. Ég leiddi hugann því ekkert sérstaklega að því hvað lánin sem ég borgaði innihéldu og hvort þau væru sanngjörn eða réttlát, en lagði allan metnað minn í að borga lánin.

Samningaviðræður

Þegar greiðsluvandi blasti við var það því mitt fyrsta verk að fara í bankann. Láta vita að ég væri að komast í vanda og óska eftir viðræðum um hvernig ég gæti staðið í skilum. Þetta var forgangsatriðið. Og líklega hefði ég verið tilbúin til að selja ömmu mína til að geta staðið í skilum við bankann. Og jafnvel ganga lengra hefðu þeir farið fram á það. Óttinn við að geta ekki staðið í skilum yfirtók allt. Í undanförnum pistlum mínum hef ég reynt að varpa ljósi á hvernig íbúðin mín var allt í einu að fara á nauðungaruppboð meðan ég hélt alltaf að ég væri í samningaviðræðum við bankann. En skoðum eitt lánið mitt aðeins betur. Lán sem var þó í skilum allan tímann.

Banki í samfestingi með belti og axlabönd

Verðtryggt 16,8 milljóna kr. lán sem tekið var á vordögum 2005 er uppreiknað í dag, um 26,4 milljónir. Lánið er á 4,15% vöxtum. Mánaðarlegur kostnaður minn af láninu er í dag kr. 99.637. Mánaðarleg afborgun af láninu er kr. 17.674. Búið er að greiðslujafna lánið þannig að kr. 13.910 af afborguninni færast á svokallaðan jöfnunarreikning. Ég borga því bara kr. 3.764 af láninu á mánuði. Jöfnunarreikningurinn safnar bæði verðbótum og vöxtum og er á rúmu ári orðinn um kr. 400.000.

Skoðum þetta nánar

Lán stökkbreytist úr 16,8 milljónum í 26,4 milljónir á 6 árum.

Mánaðarleg afborgun 17.674

Greiðsujöfnun - 13.910

Mismunur, mánaðarleg afborgun: 3.764

Afborgun verðbóta, vextir,og verðbætur v/vaxta: 95.023

Og ekki má gleyma innheimtugjaldinu 850

Samtals: 99.637

Ég borga sem sagt kr. 3.764 á mánuði af láninu meðan ég borga bankanum kr. 95.873 fyrir alla áhættuna og umsýsluna við lánið. Ekki má heldur gleyma að verðbætur og vextir voru borgaðir af jöfnunarupphæðinni áður en hún fór á jöfnunarreikninginn þar sem hún fær aftur verðbætur og vexti.

Frelsi til að hugsa

Það er hagur lánastofnana að lántakendur séu óttaslegnir og dauðhræddir um að missa heimili fjölskyldunnar. Þannig er hægt að bjóða þeim nánast hvað sem er og halda þeim við efnið hvað sem það kostar. Þess vegna er 110% leiðin. Það var stórt skref fyrir mig að viðurkenna að ég réði ekki við bankann og greiðsluvanda minn. Það var enn stærra skref að viðurkenna að ég gæti ekki borgað af öllum lánunum og flyttist úr hópi lántakenda í hóp skuldara. Það sem ég fékk í staðinn er samt dýrmætara en þetta allt saman. Frelsi til að hugsa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×