Erlent

Óttast að hundruð hafi drukknað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sorgin var mikil á meðan beðið var eftir björgunarbátum.
Sorgin var mikil á meðan beðið var eftir björgunarbátum. Vísir/EPA
Farþegar, sem bjargað var eftir að bát hvolfdi undan ströndum Egyptalands í gær, óttast að hundruð hafi drukknað. Um 550 flóttamenn voru um borð í bátnum. BBC greinir frá.

Bátnum hvolfdi um 12 kílómetrum undan ströndum Egyptalands í gær. Búið er að bjarga 163 manns sem voru um borð í bátnum og nú þegar hafa 42 lík fundist í grennd við borgina Rosetta.

Hafa yfirvöld handtekið fjóra menn í tengslum við málið sem talið er að hafi staðið því að ferja flóttamennina yfir Miðjarðarhafið. Samkvæmt frétt BBC lá báturinn fyrir utan höfnina í Rosetta en hvolfdi þegar lokahópurinn kom um borð en í honum voru 150 manns. Svo virðist sem að beðið hafi verið með brottför þangað til búið var að yfirfylla bátinn.

Þá er því haldið fram að flóttamennirnir hafi þurft að greiða aukalega fyrir að fá björgunarvesti. Hafa yfirvöld verið gagnrýnd fyrir að hafa verið lengi að bregðast við en segja sumir þeirra sem bjargað var að þeir hafi mátt bíða í sjónum í sjö til átta tíma áður en hjálp barst.

Sameinuðu þjóðirnar segja að um tíu þúsund manns hafi látið líf sína á Miðjarðarhafinu frá árinu 2014 við það að reyna að komast til Evrópu í von um betra líf, þar af þrjú þúsund á þessu ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×