Erlent

Öryggisráðið krefst vopnahlés á Gaza-svæðinu

Jakob Bjarnar skrifar
Mark Lyall Grant, fulltrúi Breta í Öryggisráðinu, ræðir við blaðamenn í morgun, að loknum neyðarfundinum sem haldinn var í nótt.
Mark Lyall Grant, fulltrúi Breta í Öryggisráðinu, ræðir við blaðamenn í morgun, að loknum neyðarfundinum sem haldinn var í nótt. ap
Gærdagurinn var sá blóðugasti síðan átök hófust milli Ísraelsmanna og Palestínumanna fyrir rúmri viku en 13 ísraelskir hermenn og 100 Palestínumenn féllu í gær.

Öryggisráð Sameinuðuþjóðanna hefur kallað eftir tafarlausu vopnahléi eftir lokaðan neyðarfund sem haldinn var í nótt vegna ástandsins á Gazasvæðinu. Fundurinn var haldinn að kröfu fulltrúa Jórdaníu í ráðinu, hann lagði fram harðorða yfirlýsingu á fundinum, að sögn heimildamanna BBC, og vildi fordæma aðgerðir Ísraelsmanna en fulltrúar ráðsins treystu sér ekki til að undirrita hana.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á leið til Cairo þar sem hann mun ræða þessa grafalvarlegu deilu með evrópskum leiðtogum, en þeir lögðu fram sáttatillögu fyrir fáeinum dögum sem Bandaríkjamenn hafa lýst yfir fullum stuðningi við.

Eins og staðan er núna hafa 501 Palestínumaður fallið í átökunum og særðir eru fleiri en þrjú þúsund. Flestir þeirra eru óbreyttir borgarar, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Varnarmálaráðuneyti Ísrael sendi landher sinn á Gazasvæðið á fimmtudag, í kjölfar mikilla eldflaugaárása á svæðið. Tveir ísraelskir borgarar hafa fallið síðan átökin hófust, 8. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×