Innlent

Opnun Vaðlaheiðaganga tefst líklega um nokkra mánuði

Stefán Árni Pálsson skrifar
VISIR/AUÐUNNNÍELSSON
„Þetta gengur ágætlega en það er verið að vinna Fnjóskadalsmegin núna í því að bora og sprengja,“ segir Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðaganga hf., sem var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Eyjafjarðarmegin hafa menn verið að vinna meira við efnaþéttingu. Hluti af því er að minnka rennsli á heita vatninu og það gengur ágætlega, samt nokkuð hægt. Við munum ljúka við þessa efnaþéttingu núna á fimmtudaginn og þá verður staðan endurmetin.“

En hvernig fer þéttingin fram?

„Við borum inn í holu og síðan í framhaldinu af því er þrýst inn efni sem harðnar á stuttum tíma.“

Valgeir segir að verkið sé tæplega hálfnað.

„Göngin áttu að opna í desember 2016 en við búumst nú við því að það verði einhverjar tafir á því. Það má fastlega búast við því að þetta frestist til vorsins 2017.“

Aðstæður hafa ekki alltaf verið góðar inni í göngunum og þurftu starfsmenn meðal annars að leita til læknis vegna hita sem var í göngunum snemma á þessu ári. Þá fór lofthitinn í göngunum vel yfir 30 gráðum. Á tíma gaus 46 gráðu heitt vatn úr vatnsæð í göngunum.


Tengdar fréttir

Fráleitt að sátt náist um áframhaldandi veggjöld

„Þeir sem ferðast undir Hvalfjörðinn verða búnir að borga veggjald í 20 ár árið 2018,“ segir Eiríkur Þór Eiríksson, einn stofnenda hóps fólks sem mótmælir áframhaldandi gjaldtöku í göngunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×