Innlent

Ögmundur um Medhi-málið: Þetta er mjög dapurlegt

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.
„Maðurinn fær þá aðhlynningu og aðstoð sem hann þarfnast, það er það sem mestu máli skiptir," sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, um málefni íranska flóttamannsins Medhi Pour, sem hellti yfir sig bensíni á skrifstofum Rauða krossins í morgun, og hótaði að kveikja í sér sjálfum.

Það er ljóst að stórhætta skapaðist af uppátæki Medhis en enginn slasaðist. Hann var yfirbugaður af sérsveitarmönnum ríkislögreglustjórans og var í kjölfarið færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu.

„Það er mjög dapurlegt hvernig komið er fyrir þessum einstaklingi," segir Ögmundur, en Medhi hefur verið hér á landi í sjö ár. Hann sótti fyrst um hæli árið 2005 og var að lokum hafnað eftir að málið rataði fyrir dómstóla.

Aftur á móti var lögum breytt fyrir um ári síðan og var hælisleitendum því gert kleift að sækja um mannúðardvalarleyfi. Því hefur dvöl hans lengst hér á landi en Ögmundur er ekki sammála því að hann hafi verið að velkjast um í kerfinu í öll þessi ár.

„Hann fékk höfnun og hún var svo staðfest af dómstólum. Síðan hefur reglunum verið breytt, til hins betra að mínu mati, og því ekki hægt að tala um að hann hafi verið að velkjast um í kerfinu," segir Ögmundur.

Hann segir málið til skoðunar hjá Útlendingastofnun. Ögmundur segir margt benda til þess að viðbrögð hans hafi byggst á misskilningi.


Tengdar fréttir

Hvetur Ögmund til þess að stöðva kerfisbundið útlendingahatur

„Ég skora á Ögmund Jónasson [innanríkisráðherra. innskt. blm.] að láta ekki kyrrt liggja og skera upp herör gegn kerfisbundnu útlendingahatri íslenska ríkisins,“ segir Haukur Már Helgason, heimspekingur, rithöfundur og ötull baráttumaður fyrir réttindum hælisleitanda og flóttamanna hér á landi.

Örvæntingin rak Mehdi til þess að hella yfir sig bensíni

Það virðist hafa verið örvæntingin sem rak hinn 53 ára gamla Mehdi Kavyan Pour til þess að taka leigubíl upp í húsnæði Rauða krossins um tíu leytið í morgun. Hann var með tvo fulla brúsa af bensíni með sér. Leigubílstjórinn, sem fréttastofa ræddi við á vettvangi, hélt að bensíntankur bílsins væri farinn að leka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×