Viðskipti innlent

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skilaði 201 milljóna hagnaði

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Helga Valfells, framkvæmdastjóri NSA
Helga Valfells, framkvæmdastjóri NSA Vísir/valli
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, NSA, skilaði hagnaði upp á 201 milljón króna á síðasta ári. Helsti tekjuliður sjóðsins var söluhagnaður af eignarhlutum í fyrirtækjum á borð við Kerecis, Primex og Alur. Á sama tíma voru samþykktar fjárfestingar fyrir 386 milljónir króna í bæði nýjum og eldri fyrirtækjum. Þetta kom fram í máli Helgu Valfells, framkvæmdastjóra NSA, á ársfundi sjóðsins sem fram fór í gær.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti opnunarávarp sem hún undirstrikaði mikilvægi nýsköpunar sem stoð í efnahagslífi landsins. Einnig tilkynnti hún að ríkisstjórn Íslands ætli að hækka framlag til Tækniþróunarsjóðs og að auki standi til að koma á fót skattalegum hvötum vegna fjárfestinga í nýsköpun.

Almar Guðmundsson, stjórnarformaður NSA, kynnti að lengi hafi verið uppi vangaveltur innan sjóðsins um að setja á fót annan sjóð. Sá hlyti nafnið Silfra en þannig væri hægt að auka fjármagn í nýfjárfestingar. Vonir eru bundnar við um að undirbúningi að stofnun sjóðsins ljúki á næstu vikum.

Sjóðurinn á nú eignir upp á 5,3 milljarða og var fjárfest í tveimur nýjum fyrirtækjum á árinu 2014, Kaptio og Sling. Fyrirtækið Kaptio býður upp á lausnir í ferðaþjónustuiðnaði og sannar að mati Helgu að vöxturinn í ferðaþjónustunni hafi líka getið af sér aljóðlega samkeppnishæf tæknifyrirtæki. Sling er hugbúnaður fyrir veitingageirann og aðra þar sem starfsfólk er ekki að staðaldri við tölvu. Hugbúnaðurinn er nú þegar kominn í notkun á veitingahúsum á bæði Íslandi og í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Innspýting upp á 120 milljónir

iNýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) og Kaskur ehf., fjárfestingafélag í eigu Inga Guðjónssonar, hafa fjárfest í hugbúnaðarfyrirtækinu Kaptio fyrir um 120 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×