Innlent

Nýr flokkur aldrei fengið meira en 10%

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði segir niðurstöðurnar sýna óánægju með fjórflokkana.
Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði segir niðurstöðurnar sýna óánægju með fjórflokkana.
„Þetta er vísbending um mikla óánægju með fjórflokkana," segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands um nýja könnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna. Könnunin sýnir að Samstaða, nýr flokkur Lilju Mósesdóttur fær yfir 20% fylgi og fengi og 14 þingmenn kjörna.

„Þetta er afar góð byrjun hjá Samstöðu en hins vegar er í þessu mikil óvissa," segir Ólafur. Hann segir að miðað við stöðuna núna virðist vera frjór jarðvegur fyrir ný framboð en hvort það skili sér í kjörkössunum þegar þar að kemur sé alveg opin spurning. Ólafur bendir á að samkvæmt könnuninni í Fréttablaðinu séu ný framboð að mælast með 31% samtals. Minnsta fylgi fjórflokkanna hafi verið 1987 þegar þeir fengu 75% en þá hafi bæði Kvennalistinn og Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar verið með um 10% fylgi. „Ef þeir fengu ekki nema 70% væri það nýtt met," segir Ólafur.

Ólafur segir að niðurstöður könnunarinnar sýni að byrjun Samstöðu sé óvenjulega glæsileg, en slík byrjun sé þó ekki óþekkt. „Við sáum svipaða hluti þegar Albert kom með Borgaraflokkinn. Þá var hann með tölur í kringum 20% en endaði í um 11%," segir Ólafur. Bandalag jafnaðarmanna, með Vilmund Gylfason í forystu, hafi líka byrjað mjög hátt en endað í ríflega sjö prósentum. Sama megi segja um Þjóðvaka, framboð Jóhönnu Sigurðardóttur, árið 1995. „Þannig að það eru ýmis dæmi um það að flokkar hafi mælst um tuttugu prósent og endað við tíu prósent," segir Ólafur. Hann bendir á að aldrei hafi nýr flokkur fengið meira en ríflega 10% í alþingiskosningum að undanskilinni Samfylkingunni. Samfylkingin hafi hins vegar verið byggð á grunni gamalla flokka.

Ólafur segir að bæði séu til dæmi um flokka sem hafi byrjað mjög vel í skoðanakönnunum en svo lækkað í aðdraganda kosninga. Einnig séu dæmi um flokka sem hafi byrjað illa en hækkað þegar á leið. VG sé dæmi um slíkan flokk.


Tengdar fréttir

Lilja hrærð yfir viðbrögðunum

Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu, nýs stjórnmálaafls sem hyggst bjóða fram í þingkosningum að ári, segir niðurstöður í nýrri könnun koma sér og flokksfélögum á óvart. Flokkurinn mældist með 21,3% fylgi í könnun sem Fréttablaðið birtir í dag og var framkvæmd i gær og í fyrradag. Samkvæmt niðurstöðunum fengi flokkurinn fjórtán þingmenn kjörna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×