Innlent

Níu hundruð hjúkrunarfræðinga vantar til starfa á næstu árum

Sveinn Arnarsson skrifar
900 nýja hjúkrunarfræðinga þarf til starfa á næstu árum.
900 nýja hjúkrunarfræðinga þarf til starfa á næstu árum.
Á næstu árum mun heilbrigðiskerfið á Íslandi þarfnast um 900 hjúkrunarfræðinga en aðeins hluti þess fjölda útskrifast á hverju ári úr íslenskum háskólum. Staðan er alvarleg að mati Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Samkvæmt mannfjöldaspám mun öldruðum fjölga mjög á næstu árum og áratugum og því munu umönnunarstéttir eins og hjúkrunarfræðingar þurfa aukinn mannskap. Aldur hjúkrunarfræðinga er einnig það hár að á aðeins næstu þremur árum verður fjórðungur starfandi hjúkrunarfræðinga búinn að ná sextíu ára aldri og á þá rétt á töku lífeyris. „Við erum að vinna sameiginlega með HÍ og HA um að fjölga nemum en það sem strandar á er fjármagn til starfsnáms sem er mjög dýrt,“ segir Guðbjörg.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga beinir því til stjórnvalda að auka við fjármagn til starfsnáms svo hægt sé að fjölga nemum. Ef fram heldur sem horfir mun þurfa að flytja inn hjúkrunarfræðinga. „Svo er spurning hvort við viljum það. Það sem skiptir mestu máli er að þeir kunni íslensku. Fólk í umönnunarstéttum verður að vera talandi á tungumálið sem fólkið sem þarf á þjónustunni að halda talar allajafna,“ segir Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×