Viðskipti innlent

Niðurfelling tolla skilað um fjögurra prósenta lækkun á fataverði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Niðurfelling tolla hefur skilað íslenskum neytendum um fjögurra prósenta lægra verði á fötum og skóm. Samtök verslunar og þjónustu benda á að þetta sé meiri lækkun en reiknaða vísitalan gerði ráð fyrir.

Um 64 prósent af innfluttum fatnaði og skóm báru fimmtán prósent tolla fram að síðustu áramótum þegar tollurinn var felldur niður. Þessi aðgerð leiddi af sér töluverða kostnaðarlækkun fyrir innflytjendur og niðurfelling tollana ætti því, að öðru óbreyttu, að leiða til ríflega átta prósenta verðlækkunar á þessum vöruflokkum.

Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands sagði í liðinni viku að verð á fatnaði og skóm hefði lækkað allt of lítið samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Helsta ástæða þess að verðlag hefur ekki lækkað eins mikið og tollbreytingarnar einar og sér gæfu tilefni til er mikil hækkun innlendra kostnaðarliða, meðal annars launahækkanir. Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu segir lækkunina í takt við spár og sér fram á sjö til átta prósent vörulækkun á árinu.

„En það sem við höfum verið að benda á er það að 35 til 45 prósent af fatnaði báru ekki tolla áður,“ segir Margrét. „Það var þannig að það eru fríverslunarsamningar og milliríkjasamningar og þessir fimmtán prósenta tollar voru ekki á þessum vörum.“

Margrét segir samtökin gera ráð fyrir að föt og skór muni lækka í verði um sjö til átta prósent vegna niðurfellingu tollanna.

„Við skulum samt aðeins vara okkur og taka inn aðra þætti,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×