Enski boltinn

Neitar því að leikmenn fóru í verkfall

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Massimo Cellino neitar fyrir að hafa nokkurn þátt í því að sex leikmenn drógu sig skyndilega úr leikmannahópi Leeds kvöldið fyrir leik liðsins gegn Charlton í ensku B-deildinni um helgina.

Cellino er nú að taka út bann fyrir að hafa brotið skattalög á Ítalíu en þessi skrautlegi eigandi Leeds er afar umdeildur hjá stuðningsmönnum félagins og margir vilja að hann hætti afskiptum af félaginu.

Frá því að Neil Readfern tók við sem knattspyrnustjóri liðsins hefur liðið náð að bjarga sér frá falli úr deildinni en engu að síður virðist hann engan veginn öruggur um að halda starfi sínu þegar samningur hans rennur út í sumar.

Leikmennirnir sex sem drógu sig úr hópnum á föstudagskvöldið eru allir sagðir hafa verið meiddir. Fjórir þeirra eru ítalskir og tveir franskir.

„Ég er ekki heigull og maður sem segir leikmönnum sínum að fara í verkfall. Ég komst að þessu bara á föstudagskvöldið. Ég viðurkenni að þetta lítur furðulega út. En af hverju lét stjórinn ekki stjórnarformanninn vita af meiðslum leikmannanna? Þetta lítur út eins og slagur á milli Neil Readfern og eiganda félagsins, sem er ekki gott,“ sagði Cellino í samtali við The Sun í dag.

Þrátt fyrir allt mótlætið ætlar Cellino ekki að selja Leeds. „Ég hef sagt frá fyrsta degi að mér finnist ég vera hjá rétta félaginu. Ég er 58 ára og tel að við getum gert góða hluti hér. Ef stuðningsmenn vilja öskra og sparka í mig þá er það allt í góðu lagi. Ég er vanur því.“


Tengdar fréttir

Eigandi Leeds féll á eigendaprófinu

Massimo Cellino, eigandi enska félagsins Leeds United, má ekki koma nálægt stjórn félagsins næstu þrjá mánuðina eftir að hann féll á eigandaprófi ensku b-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×