Erlent

Myrtu hundrað flóttamenn á báti á leið til Ítalíu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/AP
Ítalska lögreglan hefur handtekið fimm menn grunaða um að hafa myrt rúmlega 100 flóttamenn og hent þeim útbyrðist er þeir reyndu að sigla frá Afríku til Evrópu.

Atvikið átti sér stað þegar skipsskrokkurinn tók að fyllast af eiturgufum með þeim afleiðingum að skipverjar áttu erfitt með andardrátt. Mikil skelfing greip um sig á bátnum og slagsmál brutust út er flóttamennirnir reyndu að koma sér út undir bert loft. Mennirnir fimm meinuðu fólki aðgang að þilfarinu og tóku að stinga flóttamennina að því er virðist handhófskennt áður en þeir fleygðu þeim fyrir borð. Þeir ógnuðu einnig öðrum farþegum og hótuðu þeim sömu örlögum ef þeir reyndu að komast fram hjá þeim.

Eftirlifendur lýstu atburðarásinni fyrir ítölsku lögreglunni, allt frá því að ringlureiðin braust út þangað til að mennirnir fimm tóku að fleygja fólki í sjóinn en ítölsk og maltnesk lögregluyfirvöld stöðvuðu bátinn á sunnudag. Lögreglan áætlar að 60 manns hafi látist af völdum stungusára, 18 vegna eitrunar og að 50 hafi drukknað í sjónum. Líkamsleifar þeirra sem varpað var í sjóinn eru ófundnar.

Talið er að um 600 flóttamenn hafi verið um borð í bátnum, meginþorri þeirra frá Sýrlandi.  Ódæðismennirnir komu frá Marokkó, Sádí Arabíu, Sýrlandi og Palestínu. Tveir til viðbótar hafa verið kærðir fyrir smygl á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×