Innlent

Múslimar halda friðarþing í Reykjavík

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Mansoor Malik trúboði og Imam Ibrahim Michael Noonan sem talar fyrir hönd múslima á friðarþinginu í kvöld.
Mansoor Malik trúboði og Imam Ibrahim Michael Noonan sem talar fyrir hönd múslima á friðarþinginu í kvöld. Vísir/Anton Brink
Í kvöld verður haldið trúarþing á Centerhotel Plaza á vegum Ahmadiyya múslima. Slík þing eru haldin reglulega í þeim löndum sem trúarhópurinn hefur starfssemi en þetta mun vera í fyrsta skiptið sem slíkt þing fer fram hérlendis.

Hingað til lands er kominn Ibrahim Michael Noonan frá Írlandi sem er fyrsti írski maðurinn til þess að gegna hlutverki Imam þar í landi. Hann var alinn upp af kaþólskri fjölskyldu í smábæ á suður Írlandi en skipti um trú fyrir 23 árum síðan eftir að hafa verið að læra til prests.

Ibrahim hefur í gegnum árin verið talsmaður múslima í heimalandi sínu og fjölmiðlar þar leita oftar en ekki álit hans þegar fjallað er um menningarlega árekstra í heimalandinu eða í Evrópu.

Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði talar fyrir hönd ásatrúar.Vísir
Allt sami guðinn, sama hvað hann er kallaður

Það sem er nokkuð merkilegt við þessi þing er að þó svo að það sé vissulega hluti af trúboðsstarfsemi Ahmadiyya múslima hérlendis er talsmönnum annarra trúarbragða einnig boðið að koma og halda tölu.

Fyrir hönd kristinna talar Sigurður Árni Þórðarson prestur Hallgrímskirkju, fyrir hönd íslenskra búddista talar Eygló Jónsdóttir og fyrir hönd ásatrúar talar Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði. Það er Mansoor Malik, trúboði Ahmadiyya múslima á Íslandi, sem heldur utan um þingið en hann hefur m.a. staðið fyrir trúboði múslima í Kolaportinu.

„Um þetta snýst Islam, þetta er boðskapur friðar,“ segir Mansoor Malik. „Hvort sem fólk tekur því eða ekki, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að manneskjur verða búa saman og við verðum að lifa í sátt og samlyndi. Eina leiðin til þess að framkvæma það er að tengjast á þeim þáttum sem sameina okkur. Hvert sem þú lítur, þá vilja allir frið.“

„Við viljum sýna og kenna hina réttu útgáfu Islam og ekki þá útgáfu sem hefur í svo mörg ár ráðið allri umfjöllun,“ segir Imam Ibrahim Noonan með sínum sterka írska hreim. „Við viljum gefa öllum þeim tækifæri sem vilja að koma og spyrja spurninga. Sama hvort þær eru um trú eða pólitík. Þetta hefur verið okkar hefð og er núna í fyrsta skiptið hér á Íslandi. Ég trúi því að þetta sé því söguleg stund fyrir okkar samfélag og ég trúi því að þetta sé það líka fyrir Íslendinga.“

„Við trúum því að við séum öll komin frá sama guðinum. Þar skiptir engu hvaða trúarbrögð þú aðhyllist eða hvað þú kallar hann,“ útskýrir Mansoor frekar.

Mirza Ghulam Ahmad stofnandi Ahmadiyya múslima.
Skilur andúð á múslimum

Vaxandi andúð í garð múslima í Evrópu er Ibrahim mikið áhyggjuefni en hann er höfuð um 500 manna samfélags Ahmadiyya múslima á Írlandi.  „Síðustu ár höfum við fundið fyrir mikilli breytingu á afstöðu gegn múslimum. Þetta er að gerast alls staðar og hvað Írland varðar kom þetta mér mikið á óvart. Við erum vanalega mjög skilningsrík og umburðarlynd þjóð þar sem við höfum sjálf upplifað hvað það er að vera kúguð. Ég verð því hissa þegar ástandið er orðið eins og það er, að fólk er ekki reiðubúið til þess að hlusta og sumir eru jafnvel orðnir árásargjarnir. Á sama tíma skil ég það alveg miðað við hvað fólk hefur fyrir augum sér. Það sem það sér í sjónvarpinu, fréttum og öðru. Ég vil alls ekki sjá hryðjuverk í mínu landi en af sama skapi þá þarf fólk að opna hug sinn og heyra allar hliðar málsins.“

Ahmadiyya múslimar er minnihlutahópur á meðal múslima af indverskum uppruna sem segist byggja á grunni Islam. Þeim greinir frá öðrum múslimum af því leyti að þeir trúa því að stofnandi stefnunnar Mirza Ghulam Ahmad (1835-1908) hafi verið sá spámaður sem Kóraninn vísi til þegar talað er um endurkomu Messíasar í líki Jesú Krists. Þeir trúa því að sá Messías hafi haft það hlutverk að sameina fólk á friðsaman hátt í trúnni á hinn eina sanna Guð fyrir þann heimsenda sem flest trúarbrögð spái fyrir um í ritum sínum.

Þeir trúa því ekki að stofnandi þeirra hafi verið sonur Guðs eða Jesú Kristur endurfæddur heldur spámaður með svipaðan boðskap. Þeir trúa því að  kenningar hans muni á endanum verða til þess að binda friðsamlegan endi á öll trúarstríð. Það muni takast með því að fordæma ofbeldi og leggja grunn að nýju samfélagi, byggt á siðferði réttlættar og friðar.

„Það eru um 60 þúsund múslimar núna á Írlandi. Þeir eru af alls kyns meiði, af öllum þjóðfélagsflokkum og túlka sína trú með mismunandi hætti. Það er staðreynd að þar eru núna aðilar sem aðhyllast þá hugmyndafræði sem ríkir á meðal hryðjuverkamanna og ég hef verið að vara írsk stjórnvöld við því síðan 2003. Þegar slík hugmyndafræði nær rótum innan mosku þá tvístrar það söfnuðinum og eyðileggur í leiðinni grunn þess samfélags. Hið sorglega við þetta allt er að almenningur telur að svona séu múslimar yfir höfuð en það er alls ekki svoleiðis.“


Tengdar fréttir

Barist um sálir í Kolaportinu

Í áraraðir hafa Ahmadiyya-múslimar haldið uppi bási í Kolaportinu. Tveir kristnir félagar ákváðu að stofna þar bás til höfuðs þeim og síðan þá hefur ekkert bólað á trúboði múslima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×