Viðskipti innlent

MS kærir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
MS var sektað um 370 milljónir.
MS var sektað um 370 milljónir. Vísir / Stefán
Mjólkursamsalan hefur kært niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um að fyrirtækið hafi brotið lög til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Eftirlitið sektaði Mjólkursamsöluna um 370 milljónir króna fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið seldi hrámjólk á hærra verði til aðila sem eru ótengdir fyrirtækinu en þeim sem tengjast því.

Í fréttatilkynningu frá Mjólkursamsölunni, eða MS, kemur fram að þess sé krafist að niðurstaða eftirlitsins byggi á nýrri og fordæmalausri túlkun á búvörulögum. Þá telur fyrirtækið að stórfelldir annmarkar séu á málsmeðferðinni sem ættu að verða til þess að það sé fellt niður. Í tilkynningunni segir að MS telji niðurstöðuna byggja á grundvallarmisskilningi á eðli viðskiptanna sem um var fjallað.

„MS telur að komi ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar þá sé í uppnámi samstarf afurðastöðva um að lækka framleiðslukostnað til ábata fyrir neytendur og bændur,“ segir í tilkynningunni. MS hefur óskað eftir munnlegur málflutningur fari fram fyrir áfrýjunarnefndinni vegna þess hve umfangsmikið málið sé og hagsmunir svo verulegir.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kom í kjölfar kæru mjólkurbúsins Kú sem sakaði MS um að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja fyrirtækinu hrámjólk á 17 prósenta hærra verði en Mjólku, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í Auðhumlu, eiganda MS.


Tengdar fréttir

MS sektað um 370 milljónir króna

Samkeppniseftirlitið lítur brot MS á samkeppnislögum alvarlegum augum. Niðurstaðan kemur fyrirtækinu á óvart og hyggst það áfrýja málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×