Enski boltinn

Mourinho: Ég skal fara ef leikmenn vilja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að hann muni aðeins hætta sjálfviljugur hjá félaginu ef leikmenn hans óski eftir því.

Titilvörnin hjá Chelsea hefur farið skelfilega af stað í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur unnið aðeins tvo af fyrstu átta leikjum sínum í deildinni og er í sextánda sæti með átta stig.

Mourinho lét gamminn geisa í viðtali við Sky Sports eftir 3-1 tap fyrir Southampton um helgina og sagði meðal annars að hann væri besti knattspyrnustjóri í sögu Chelsea. Sjö mínútna einræðu hans má sjá hér.

Enskir fjölmiðlar fullyrtu að krísufundur hafi þegar verið haldinn hjá Chelsea um stöðu Mourinho og að portúgalski stjórinn muni halda starfi sínu enn um sinn.

„Fólk getur sagt það sem það vill,“ sagði Mourinho í öðru viðtali í gærkvöldi. „Ég held að þú ættir að leita beint til leikmannanna. Það eina sem fengi mig til að hætta væri ef þeir segðust ekki lengur treysta mér.“

„Það er það eina. Ekki tilbúnar heimildir fjölmiðla heldur aðeins leikmennirnir sjálfir.“

Mourinho segir að hann sé nú að ganga í gegnum erfiðasta kafla síns knattspyrnustjóraferils. „Ég skil nú hversu stór ég er. Ég er ekki hræddur. Ég er ekki grátandi né örvæntingafullur. Ég geri mér grein fyrir því hversu stór ég var og hversu stór ég er.“

„Lífið er auðvelt þegar maður er meistari. Tilfinningin sem maður fær með tapi er ekki góð en ég er ánægður með sjálfan mig og hvernig ég er að takast á við ástandið.“


Tengdar fréttir

Segist ekki hafa niðurlægt Matic

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir ekkert til í því að hann hafi niðurlægt Nemanja Matic þegar hann tók hann af velli 27 mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður.

Mourinho: Vill enga strúta hjá félaginu

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að leikmenn sínir geti ekki stungið hausinum í sandinn til að fela sig líkt og strútar gera eftir slakt gengi undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×